Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:39:15 (4635)

1998-03-12 11:39:15# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsgöðu er ekki tími til að fara í ítarlegar umræður um Kyoto-ráðstefnuna og frammistöðu stjórnvalda þar og undirbúning eða heimavinnu. Það sem ég hef fyrst og fremst gagnrýnt er að við lentum þar að mínu mati í allt of neikvæðu ljósi. Við gátum byggt málflutning okkar og stöðu jákvæðar að mínu mati heldur en gerðist. Við lentum bæði í neikvæðu ljósi og í neikvæðum félagsskap. Við eigum að sjálfsögðu á engan hátt samleið í þessum efnum með t.d. stórþjóðum eins og Bandaríkjunum en það lenti nú með vissum hætti samt þannig að Íslandi var stillt upp sem einu af þeim löndum sem væri komið til Japans til þess fyrst og fremst að reyna að bremsa af kröfurnar um að dregið yrði úr þessari losun og semja um sem stærsta undanþágu fyrir sjálfa sig.

Nú er ekkert um það deilt að Ísland hefur mikla sérstöðu. Það geta að vísu mörg önnur lönd sagt. Það geta t.d. nánast öll þróunarlöndin sagt með gildum rökum. Við verðum því aðeins að gæta að því við erum auðvitað ekki þeir einu sem segja: Þetta er svona hjá okkur og svona og svona, og það verður að taka tillit til þess. Það geta út af fyrir sig margir fleiri sagt og haft fyrir því býsna mikil rök þannig að að því ber auðvitað að gæta.

Í öðru lagi hefur mér fundist að málflutningur íslenskra stjórnvalda í kringum þetta mál beindist of mikið að því að árangur okkar eða aðgerðir sneru út á við en ekki inn á við. Eins og ég var að reyna að segja áðan í andsvari við eða svari til hv. þm. Hjálmars Árnasonar eru líka miklir möguleikar sem snúa inn á við að breytingum hjá okkur sjálfum sem geta gert okkur kleift að standa með fullum sóma að þeim skuldbindingum sem við eigum að mínu mati að axla ábyrgð á á grundvelli Kyoto-niðurstöðunnar.