Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:09:07 (4639)

1998-03-12 12:09:07# 122. lþ. 86.8 fundur 353. mál: #A málefni aldraðra# frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:09]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breyting á lögum um málefni aldraðra sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur, Svavari Gestssyni og Kristínu Halldórsdóttur. Um er að ræða að við þau lög bætist ný málsgrein sem orðist svo, með leyfi forseta:

,,Samráð skal haft við heildarsamtök aldraðra og aðildarfélög þeirra um opinbera stefnumörkun og ákvarðanir er varða hag og kjör aldraðra.``

Hér er í raun og sanni um að ræða svipað ákvæði og verið hefur í lögum um málefni fatlaðra allar götur frá 1983 en samkvæmt því ákvæði í lögum um málefni fatlaðra og markmið þess ákvæðis var að tryggja heildarsamtökum fatlaðra og félögum þeirra áhrif á ákvarðanatöku um málefni sín svo sem með því að leita umsagnar heildarsamtaka fatlaðra eða sérstakra félaga þeirra eða Styrktarfélagi fatlaðra sem hlut ættu að máli hverju sinni við gerð og framkvæmd áætlana, laga og reglugerða er þau vörðuðu. Það er alveg ljóst, herra forseti, að ekki er síður ástæða til þess að lögbundið sé slíkt samráð við heildarsamtök aldraðra og aðildarfélög þeirra, bæði um opinbera stefnumörkun og eins varðandi allar ákvarðanir er lúta að hag og kjörum aldraðra.

Aldraðir, 67 ára og eldri, eru fjölmennur hópur eða um 27 þús. manns. Aldraðir hafa látið sig meira og meira skipta kjör sín og afkomu og aðbúnað. Það er eðlilegt að þessi hópur geri það vegna þess að við höfum upplifað það mjög á síðustu mánuðum og missirum hvernig sífellt er ráðist raunverulega, ég vil nota það orð, herra forseti, að kjörum og aðbúnaði þessa hóps. Það er alvarlegt umhugsunarefni að á tímum þegar við búum við góðæri og uppsveiflu að skuli ríkisstjórnin oft sjá matarholu í kjörum og aðbúnaði aldraðra og skera þar niður til þess að létta á halla ríkissjóðs. Auðvitað væri freistandi, herra forseti, að rifja upp af því að við erum að ræða um samráð við aldraða um stefnumörkun og ákvarðanir er varða hag og kjör aldraðra hve oft hefur verið gerð aðför að lífeyrisþegum á þessu kjörtímabili í fjárlögum, svo dæmi sé nefnt. Ég ætla bara að rifja upp örfá atriði.

Tvísköttun lífeyris var hafin að nýju. Það sem var mjög alvarlegt er að lífeyrisgreiðslur fylgja ekki lengur launahækkunum í landinu og hópur aldraðra sá ástæðu til þess fyrir nokkrum vikum að fjölmenna niður á Austurvöll til að mótmæla aðför stjórnvalda á kjör aldraðra. Um langan tíma hefur lífeyrir til aldraðra hefur fylgt lágmarkslaunum í landinu. En þannig er það ekki lengur. Lágmarkslaun í landinu eru ekki mikil, 70 þúsund kr. en lífeyrir aldraðra er kannski um 20 þúsund kr. minni.

Við þekkjum að Framkvæmdasjóður aldraðra hefur verið skertur með þeim hætti að hann er varanlega settur í rekstur. Grunnlífeyririnn var skertur á kjörtímabilinu og svo mætti lengi telja. Auðvitað var það svo að ekki var verið að hafa samráð við aldraða um breytingarnar sem höfðu mikil áhrif á kjör þeirra og afkomu. Ég tel, herra forseti, að full ástæða sé til þess að hafa slíkt ákvæði eins og hér er inni. Ég minni á í því sambandi að bæði í lögum um málefni aldraðra og lögum um málefni fatlaðra er annars vegar í lögum um málefni fatlaðra ákveðin stjórnarnefnd sem er félmrn. m.a. til ráðgjafar að því er varðar framkvæmd á þeim lögum. Hins vegar er í lögum um málefni aldraðra samstarfsnefnd um málefni aldraðra en verkefni hennar er að vera tengiliður milli ráðuneytis og stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra.

En þessi tillaga eins og er í lögunum um málefni aldraðra er af öðrum toga vegna þess að þar er lögbundin með ákveðnum hætti skylda stjórnvalda til þess að hafa samráð við heildarsamtök aldraðra og aðildarfélaga þeirra um opinbera stefnumörkun og ákvarðanir er varða hag og kjör aldraðra.

[12:15]

Inntakið í þessu er því raunverulega það að ef á döfinni er af hálfu stjórnvalda að breyta einhvern veginn kjörum eða aðbúnaði aldraðra, hvort sem það er að bæta hann eða skerða sem hefur þó heldur verið tilhneigingin á undanförnum missirum, þá skuli það ekki gert nema aldraðir og samtök þeirra komi að málinu á undirbúningsstigi. Með þessu ákvæði er lögð skylda á heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að það hafi samráð við samtök aldraðra eða hlutaðeigandi félag þeirra um vinnu að stefnumótun um málefni aldraðra, undirbúning frumvarpa til laga eða setningu reglugerða sem snerta hag og kjör aldraðra og einnig að heilbrrn., sem er mikilvægt, hlutist til um að önnur ráðuneyti geri hið sama, t.d. fjmrn. og fleiri, þ.e. að ef um er að ræða einhverjar breytingar að því er varðar aðbúnað og kjör þeirra þá verði haft samráð við samtök aldraðra um þær, ekki bara í formi einhverrar tilkynningarskyldu þegar ákvörðun hefur verið tekin í ríkisstjórn, herra forseti, um slíkar breytingar, heldur að þegar slík áform eru uppi komi aldraðir og samtök þeirra að því borði þegar á undirbúningsstigi. Ég held líka, herra forseti, að þetta sé mikilvægt fyrir stjórnvöld vegna þess að aldraðir búa yfir mikilli reynslu sem getur mjög gagnast stjórnvöldum og ættu þau í raun og sanni að hafa meira samráð við samtök aldraðra ef breytingar eru á döfinni vegna þess að samtök aldraðra og aldraðir búa yfir mikilli reynslu sem gagnast við alla stefnumörkun að því er varðar breytingar í þessum málaflokki.

Eins og ég sagði hafa aldraðir látið æ meira til sín taka málefni er varða aðbúnað og afkomu þeirra og þeir hafa beitt sér eins og við höfum séð mjög áþreifanlega, gagnvart stjórnvöldum til að tryggja betur hag sinn. Ég tel því að það sé ákaflega mikilvægt og til þess fallið að stuðla að lýðræðislegum ákvörðunum að lögbinda slíkt samráð og samvinnu við samtök aldraðra eins og hér er lagt til, enda skulum við líka muna að aldraðir hafa engan samningsrétt um kjör sín og afkomu.

Ég vil í lokin nefna að þetta fyrirkomulag sem ég mæli hér fyrir er þekkt víða erlendis og ég nefni Noreg í því sambandi. Þar hafa verið settar reglur um samningaviðræður ríkisstjórnar og samtaka eftirlaunafólks og komið hefur verið á fót viðræðunefnd með aðild samtaka eftirlaunafólks og stjórnvalda. Þar er samráð við aldraða virt og öldruðum sýnd sú virðing að þeir geti átt þátt í að móta breytingar og stefnumörkun að því er hag og aðbúnað þeirra varðar. Í Noregi er verkefni slíkrar viðræðunefndar, sem ég nefndi, að ræða mál varðandi tryggingafyrirkomulag og aðrar stuðningsaðgerðir og fleira sem skiptir máli fyrir aldraða. Samvinnunefndin fer árlega yfir frv. til fjárlaga --- það er nú svolítið athyglisvert --- og tryggingaþætti þess sem snerta hag og kjör aldraðra áður en málið er lagt fyrir Stórþingið. Þetta finnst mér til fyrirmyndar, herra forseti, að samtök aldraðra fái að segja álit sitt á því og hvaða áhrif það hefur ef verið er að leggja til skerðingar eða breytingar á kjörum þeirra gegnum fjárlögin. Samstarfsnefndin getur einnig að eigin frumkvæði eða eigin ósk samtaka aldraðra tekið fyrir mál er snerta samskipti ríkis, almannatrygginga og aldraðra. Í sveitarfélögum og fylkjum í Noregi hefur með lögum frá 1992 einnig verið sett á fót öldrunarráð sem er ráðgefandi aðili fyrir sveitarfélögin um málefni aldraðra, en skylt er að leggja fyrir ráðið mál sem snerta hag og kjör aldraðra áður en sveitarstjórnir fjalla um þau. Öldrunarráð getur líka sjálft átt frumkvæði að því að taka upp mál sem snerta aldraða í sveitarfélaginu. Á vegum stjórnvalda í Noregi hefur frá 1970 verið starfandi öldrunarráð ríkisins sem er ráðgefandi aðili fyrir ríkisstjórnina og opinberar stofnanir og samræmir sjónarmið ríkisvaldsins og hagsmunasamtaka aldraðra í málum sem þá varða. Slíkt fyrirkomulag tel ég alveg til fyrirmyndar, herra forseti, en þessi litla tillaga sem hér er mælt fyrir kveður á um það, sem ætti auðvitað að vera lýðræðislegur réttur aldraðra og því ætti ekki að þurfa að lögbinda það, að samtökum aldraðra skuli sýnd sú lágmarkskurteisi að haft sé samráð við heildarsamtök aldraðra og aðildarfélög þeirra um opinbera stefnumörkun og ákvarðanir er varða hag og kjör aldraðra.

Fyrir þinginu liggja tvær tillögur, annars vegar till. til þál. um umboðsmann aldraðra og hins vegar frv. um sama efni, þ.e. umboðsmann aldraðra. Þessi mál eru flutt af stjórnarsinnum. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er 1. flm. frv. og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson 1. flm. þáltill. Stjórnarliðar sjá að það gengur ekki hvernig í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið gerð atlaga að kjörum aldraðra í þjóðfélaginu og telja nauðsynlegt að stofna embætti umboðsmanns aldraðra sem sérstaklega gæti hagsmuna þess hóps. Full ástæða er til að skoða af alvöru slíkar tillögur. Fyrsta skrefið er þó það sem hér er lagt til, að haft sé samráð við aldraða og aðildarfélag þeirra um allt sem snertir breytingar og ákvarðanir er varða hag og kjör þessa hóps.

Herra forseti. Í lokin vil ég segja að ég gerði mér nokkurt far um að reyna að ná breiðri samstöðu um þetta litla mál þannig að meiri möguleiki væri að þessi tillaga næði fram að ganga á hv. Alþingi. Ég leitaði því mjög stíft til stjórnarliða um að verða flutningsmenn að þessari tillögu, en þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna flytja þetta mál. Þeir tóku því vel að verða flutningsmenn að þessu frv. en eftir að hafa rætt við hæstv. heilbrrh. var annað upp á teningnum því þeir sögðu að hæstv. heilbrrh. ætlaði sjálf að flytja slíka tillögu hér inn í þingið. Það eru nú orðnir nokkuð margir mánuðir síðan þetta mál var lagt fram og ég hef ekki, herra forseti, séð bóla á neinni slíkri tillögu frá hæstv. heilbrrh. í þinginu. Ég vona því að þessir stjórnarþingmenn sem gjarnan vildu styðja þetta mál hafi ekki verið blekktir af hæstv. ráðherra, a.m.k. hafa þeir nú tækifæri til styðja þetta mál vegna þess að vonandi fær þetta mál framgang og kemur hér til 2. umr. áður en þingi lýkur. Ég veit að það mun ekki vefjast fyrir hv. heilbr.- og trn. að afgreiða þetta mál fljótt og vel út úr nefndinni. Að lokum, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.