Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:33:38 (4641)

1998-03-12 12:33:38# 122. lþ. 86.8 fundur 353. mál: #A málefni aldraðra# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágæt og nauðsynleg ádrepa á stjórnarliðið sem kom fram í ræðu hv. þm. Gísla S. Einarssonar. Hún var virkilega tímbær. Við eigum aldrei að sleppa tækifæri til þess að minna á hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram við aldraða og lífeyrisþega á þessu kjörtímabili. Það sem kom fram í ræðu hv. þm. er að fjöldi lífeyrisþega fær ekki það sem hann á rétt á vegna þess að hann þarf að bera sig eftir öllu er auðvitað alveg rétt. Menn þurfa að bera sig eftir öllu, það þarf að sækja um allt, menn þurfa að þekkja rétt sinn til hlítar til að fá það sem þeir eiga rétt á í kerfinu. Ég vil bæta því við að fjöldi bótagreiðslna fæst ekki borgaður aftur í tímann, bara frá þeim degi sem sótt er um, þó að menn eigi réttinn mörg ár aftur í tímann.

Ég tók eftir því að það virtist hafa komið hv. þm. á óvart, herra forseti, að málum væri þannig háttað, og hann vitnaði í Listina að lifa, blað eldri borgara. En þetta kemur nefnilega líka mörgum öldruðum á óvart. Það þarf sífellt að vera að bera sig eftir og leita eftir upplýsingum til að geta fengið það sem menn eiga rétt á. Ég vil í þessu andsvari taka undir það mál sem er til umræðu að það er löngu orðið tímabært að aldraðir komi að þeim málum sem þá varða og ég mun leggja málinu lið í heilbr.- og trn. þegar það kemur þangað en vissulega þurfa málefni aldraðra að fá sífellda og stöðuga umræðu, bæði í þinginu og annars staðar í samfélaginu.