Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:37:33 (4643)

1998-03-12 12:37:33# 122. lþ. 86.8 fundur 353. mál: #A málefni aldraðra# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:37]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan. Margir bótaflokkar fást ekki greiddir nema frá þeim tíma sem sótt er um greiðslurnar. Aðrar greiðast eitthvað aftur í tímann og í mesta lagi í tvö ár, þeir sem eiga mestan rétt aftur í tímann, svo öllu sé til haga haldið í þeim efnum.

En vissulega þarf að taka á þessum málum, sérstaklega á lífeyrismálunum, og það þarf að fara í endurskoðun á þeim öllum. Af því að hv. þm. var að tala um fátækt og hversu illa staddar konur eru sem eru lífeyrisþegar langar mig til að minnast á það hér að Norðmenn töldu ástæðu til þess nú á dögum að breyta lögum hjá sér þannig að þær konur, sem hefðu stundað heimilisstörf og uppeldi barna í lengri tíma um ævina og eru orðnar ellilífeyrisþegar, fái aukin lífeyrisréttindi til að vinna upp það sem þær hafa misst vegna þess að þær hafi ekki verið úti á vinnumarkaði og öðlast lífeyrisréttindi á þann hátt. Auðvitað er full ástæða til þess að við skoðum það hér hvort hægt sé að koma til móts við konur á þennan hátt þannig að þær beri ekki skarðan hlut frá borði eins og er í dag þar sem komið hefur í ljós við hverja könnunina á fætur annarri á högum aldraðra að konur sem eru orðnar ellilífeyrisþegar, standa verr að vígi fjárhagslega en karlarnir. Það er auðvitað vegna þess hvernig lífeyriskerfið okkar er og konur hafa í mun skemmri tíma greitt til lífeyrissjóðanna.