Ábyrgðarmenn

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 13:39:30 (4651)

1998-03-12 13:39:30# 122. lþ. 86.11 fundur 310. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[13:39]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ábyrgðarmenn sem finna má á þskj. 390, 310. mál. Meðflutningsmenn mínir eru 17 aðrir þingmenn úr stjórnarandstöðunni.

Virðulegi forseti. Í núgildandi lögum er hvergi að finna almennar reglur um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga eða hvernig staðið skuli að slíkri samningsgerð. Bankar og lánastofnanir hafa því í gegnum tíðina að mestu mótað eigin reglur um samskipti sín og ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga.

Samkvæmt skýrslu nefndar, sem viðskiptaráðherra skipaði til að fara yfir framkvæmd ábyrgðarveitinga, kemur fram að gera má ráð fyrir að um 90 þús. einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila. Það eru um það bil 47% allra Íslendinga á þessum aldri.

Flest bendir til þess að ábyrgðarskuldbindingar hér á landi séu mun algengari en annars staðar á Norðurlöndum eða Vestur-Evrópu. Þannig kemur fram í áðurnefndri skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga (nóvember 1996), að höfundur norrænnar skýrslu um ábyrgðarveitingar telur að á 10% heimila á Norðurlöndum megi finna einstaklinga sem eru í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Ef aðeins er tekið mið af upplýsingum sem fram koma í skýrslunni er ekki óvarlegt að ætla að á 60--80% heimila hér á landi megi finna einstaklinga yfir 18 ára aldri sem eru í persónulegri ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Því má fullyrða að þróun ábyrgðarskuldbindinga hér á landi hefur orðið önnur en annars staðar á Norðurlöndum.

Með framlagningu þessa frumvarps, sem skiptist í sex kafla, er gerð tilraun til þess að sporna við þessari þróun sem flutningsmenn telja óásættanlega. Ýmsir möguleikar voru kannaðir í því sambandi en niðurstaðan varð sú að leggja til að reglurnar næðu til allra samninga og skuldabréfa þar sem einstaklingar skuldbinda sig persónulega til að tryggja efndir peningakröfu á hendur aðalskuldara. Reglunum er því ætlað að gilda um samninga þar sem einstaklingar takast á hendur persónulega ábyrgð eða ábyrgð fyrir hönd einkafirma síns og aðalskylda skuldara er greiðsla peninga.

Reglunum er ekki ætlað að breyta ákvæðum laga um tékka eða víxillaga því þau eiga sér alþjóðlega skírskotun með rætur í alþjóðasamningum sem flestar vestrænar þjóðir eiga aðild að og einhliða breytingar aðildarríkja eru því óæskilegar að mati þess sem hér stendur. Rétt er þó að vekja athygli á 2. málsl. 2. mgr. 4. gr., sem kveður á um bann við afhendingu viðskiptabréfa með ábyrgðarmönnum í því skyni að tryggja kröfu á hendur aðalskuldara sem kann að stofnast í framtíðinni. Það ákvæði gildir um tékka og víxla en breytir ekki ákvæðum þeirra laga.

Markmiðið með frumvarpinu er að lögfesta almennar reglur um stofnun, form og efni ábyrgðarsamninga, samskipti ábyrgðarmanna og kröfuhafa, upplýsingaskyldu kröfuhafa og ógildingarástæður.

Frumvarpið byggist einkanlega á sjónarmiðum um neytendavernd. Nauðsyn hennar birtist meðal annars í aðstöðumun sem jafnan er á stöðu ábyrgðarmanna og viðsemjanda þeirra. Í flestum tilvikum er öll sérfræðiþekking í lánsviðskiptum hjá lánveitanda (kröfuhafa), auk þess sem ábyrgðarmaður sjálfur hefur sjaldnast nokkurn hag af samningum. Ástæður einstaklinga fyrir því að gangast í ábyrgð eru oftar en ekki krafa lánastofnana eða annarra stórfyrirtækja um auknar tryggingar, auk þrýstings frá fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum sem erfitt getur verið að standast þar sem afkoma og afdrif einstaklinga geta verið undir því komin að umbeðin fyrirgreiðsla fáist.

Hér á landi virðist hafa verið lögð ríkari áhersla á að þriðji maður ábyrgðist efndir aðalskuldara en þekkist í nágrannalöndunum. Minni áhersla virðist hafa verið lögð á að lánveitandi láti fara fram faglegt mat á greiðslugetu lántakenda eins og skýrslan sem vitnað er til hér að framan um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga ber með sér. Lánastofnanir virðast þess í stað hafa reynt að tryggja sér ábyrgð þriðja manns í því skyni að takmarka áhættu sína. Markmiðið með framlagningu frumvarpsins er því öðrum þræði að reyna að breyta vinnubrögðum lánastofnana frá því sem nú tíðkast í allt of ríkum mæli.

[13:45]

Þá er eitt af markmiðum frumvarpsins að tryggja að upplýsingar um áhættu ábyrgðarmanns liggi fyrir þegar ábyrgðarsamningur er undirritaður og styrkja eins og kostur er réttarstöðu ábyrgðarmanna. Þessi upplýsingagjöf kröfuhafa er forsenda samningsins og liggi upplýsingar ekki nægjanlega skýrt fyrir við samningsgerð getur það leitt til þess að samning megi ógilda á grundvelli reglna frumvarpsins og almennra reglna um brostnar forsendur í samningum, sbr. III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Finna má mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi um að forsenda þess að samningar tókust er að þriðji aðili, einstaklingur, tókst á herðar ábyrgð á efndum. Dæmi eru um tilvik þar sem samningsaðilum sjálfum var ljóst að aðalskuldari gæti aldrei efnt samning, en hann komist á þrátt fyrir það. Þetta hefur leitt til þess að ábyrgðarmenn hafa misst heimili sín og þannig hefur verið kippt stoðum undan fjárhagslegu og félagslegu öryggi heilu fjölskyldnanna, án þess að ábyrgðarmenn hafi nokkurn tíma haft af því hagsmuni að samningi væri komið á. Afleiðingarnar hafa oft verið mjög alvarlegar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Róttækustu breytingarnar sem frumvarpið felur í sér er þó að finna í 4. gr. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að ábyrgðarsamningar skuli vera skriflegir. Það er formskilyrði fyrir gildi þeirra. Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að sönnunaraðstaða um efni ábyrgðarsamnings væri mjög erfið væri hann ekki til staðar skriflegur. Í reynd er það svo að flestir ábyrgðarsamningar eru skriflegir og því mun þetta ekki hafa mikla ,,praktíska`` breytingu í för með sér frá því fyrirkomulagi sem nú ríkir. Í 2. mgr. er kveðið á um að ábyrgðarsamningar, þar sem ekki er kveðið skýrt á um höfuðstól kröfu á hendur aðalskuldara, séu ógildir, auk þess sem óheimilt er að afhenda viðskiptabréf með ábyrgðarmönnum til að tryggja kröfu. Þá er í 3. mgr. kveðið á um að ekki verði gerð aðför í fasteign ábyrgðarmanns, sem hann býr í, ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs. Með öðrum orðum yrði aðför ekki gerð í heimili ábyrgðarmanns ef krafan á rót að rekja til ábyrgðarloforðs. Auk þessa er að finna ákvæði þess efnis að krafa um gjaldþrotaskipti verði ekki höfð uppi vegna kröfu sem á rót sína að rekja til ábyrgðarsamnings.

Reglur 4. gr. frumvarpsins eiga sér sumpart fyrirmynd í reglu sem hefur verið lögfest víða í Bandaríkjunum, svokallaðri ,,Homestead exemption``-reglu (Homestead exemption for the house in wich the debtor lives, þ.e. homestead merkir heimili skuldara). Í öllum samanburði við þessa reglu er rétt að hafa í huga að bandaríska reglan á við um gjaldþrotaskipti, en hér er ætlunin að setja almennar reglur um ábyrgðarmenn.

Þrátt fyrir það gengur þessi svokallaða ,,Homestead exemption``-regla mun lengra en ætlunin er að kveða á um hér. Hún felur í sér að almennt renna heimili skuldara, og þá ekki einvörðungu ábyrgðarmanna heldur heimili allra skuldara, ekki inn í gjaldþrotabú við skipti.

Rökin að baki reglunni eru þau að það þjóni ekki hagsmunum samfélagsins að reka einstaklinga og fjölskyldur á dyr í kjölfar gjaldþrots; það auki aðeins á þann vanda sem fyrir er en leysi engan. Samfélagsleg vandamál vegna sundraðra heimila vegi þyngra en hagsmunir einstakra kröfuhafa af því að geta leitað efnda kröfu með því að selja hús ofan af skuldaranum. Tilvist reglunnar leiðir sjálfkrafa af sér að ríkar kröfur eru gerðar til samningsaðilanna sjálfra um fagleg vinnubrögð við samningsgerð. Sú staðreynd að gagnaðili eigi fasteign undanþiggur ekki viðsemjanda hans frá því að sýna ýtrustu aðgæslu við samningsgerð. Reglan sem er almenn tekur jafnt til aðalskuldara og ábyrgðarmanna og gengur því mjög langt í því að vernda fjölskylduna, mun lengra en hér er ætlunin, enda gildir þetta frumvarp aðeins um ábyrgðarmenn.

Það er mat flutningsmanna að með framlagningu frumvarpsins sé á engan hátt vegið að eðlilegu samningsfrelsi í landinu. Samningsfrelsi er og verður ein af grundvallarreglum samfélagsins, þótt sú regla verði að sæta eðlilegum undantekningum sem finna má ýmis dæmi um í löggjöfinni. Í því sambandi má benda á ákvæði laga um nauðsyn þess að vernda vissa einstaklinga fyrir eigin gjörðum, eins og finna má dæmi um í ákvæðum lögræðis- og samningalaga. Þá hafa undantekningar frá meginreglunni um samningsfrelsi einstaklinga verið réttlættar með tilvísun til félagslegra þarfa, en dæmi um það má finna á víð og dreif í vinnumarkaðslöggjöfinni. Þá má nefna ýmis ákvæði samkeppnislaga sem leggja hömlur á samningsfrelsi. Aðalmarkmið þeirra laga er að vernda eðlilega samkeppni og í hennar þágu eru lagðar kvaðir á óheft samningsfrelsi. Vernd samkeppninnar er því markmið í sjálfu sér sem löggjafinn hefur talið ástæðu til að vernda sérstaklega í þágu almennings. Að baki þeirri ákvörðun hvílir sú hugmyndafræði að verið sé að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Rökin að baki þeim reglum sem hér er ætlunin að lögfesta er markmiðið um vernd einstaklingsins sökum þeirrar yfirburðastöðu sem lánveitendur hafa jafnan við samningsgerð, auk þess sem það er mat flutningsmanna að þróunin hér á landi hvað varðar fjölda ábyrgðarmanna sé óþolandi, eins og skýrsla iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber með sér. Það er því mat flutningsmanna að hindranirnar sem hugsanlega má finna í frumvarpinu verði réttlættar með þeim rökum að verið sé að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Af framansögðu má ljóst vera að takmarkanir á óheftu samningsfrelsi borgaranna eru langt í frá nýlunda í íslenskri löggjöf þótt flutningsmenn séu almennt þeirrar skoðunar að jafnan þurfi að ígrunda og rökstyðja vel alla löggjöf sem skerðir á einhvern hátt meginregluna um óheft samningsfrelsi borgaranna. Það frelsi telja flutningsmenn að heyri til almennra mannréttinda.

Virðulegi forseti. Ég hef farið hér yfir almennar athugasemdir með frv. og tel nú svo sem ekki ástæðu til að rekja hverja einustu grein sem þar er að finna. Ég get þó ekki, sökum mikilvægis a.m.k. sumra þeirra, látið hjá líða að fara yfir nokkrar greinar.

Almennt, virðulegi forseti, er þessum lögum ætlað að gilda um samninga og skuldabréf þar sem einstaklingur hefur skuldbundið sig persónulega til að tryggja efndir peningakröfu á hendur aðalskuldara.

Það má kannski segja, virðulegi forseti, að róttækustu breytinguna frá því sem nú er og mestu réttarvernd fyrir einstaklinga sem hyggjast ganga í persónulega ábyrgð sé að finna í 4. gr. frv. en þar segir:

Ábyrgðarsamningur skal vera skriflegur. Skilyrði sem ekki kemur fram í ábyrgðarsamningi er ekki bindandi fyrir ábyrgðarmann, nema lög kveði á um annað.

Ábyrgðarsamningur, sem ekki kveður skýrt á um höfuðstól kröfu á hendur aðalskuldara, er ógildur. Enn fremur er ábyrgðarsamningur, sem kveður á um afhendingu viðskiptabréfs með ábyrgðarmönnum í því skyni að tryggja kröfu sem kann að stofnast í framtíðinni, ógildur. Ákvæði í ábyrgðarsamningi sem fara í bága við ákvæði laga þessara eru ógild.

Ekki verður gerð aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans, ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs. Á sama hátt getur kröfuhafi ekki, ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs, krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns.

Ábyrgðarmanni skal afhent eintak af lánssamningi, auk eintaks af ábyrgðarsamningi ef hann er gerður sérstaklega.

Ég vil, virðulegi forseti, fara hér örlítið yfir athugasemdir við þessa grein, en þar kemur fram að formskilyrði fyrir gildi ábyrgðarsamnings er að hann sé skriflegur. Í ábyrgðarsamningi eiga að koma fram hvaða upplýsingar lágu fyrir við samningsgerðina. Enn fremur skal koma fram hvaða réttindi kröfuhafi áskilur sér gagnvart ábyrgðarmanni umfram það sem leiðir af lögum og venjum, ef einhverjar eru, því að ábyrgðarmaður er ekki bundinn af öðrum skilyrðum en þeim sem fram koma í samningnum, nema lög eða venjur kveði á um annað. Ákvæðið nær einnig til handhafabréfa.

Í 2. mgr. kemur fram að ábyrgðarsamningur, þar sem ekki kemur skýrt fram hver höfuðstóll kröfu er á hendur aðalskuldara, er ógildur. Jafnframt er óheimilt að kveða á um afhendingu viðskiptabréfs með ábyrgðarmönnum til tryggingar óákveðinni kröfu. Þetta ákvæði hefur í för með sér að óheimilt er að afhenda viðskiptabréf með ábyrgðarmönnum í því skyni að tryggja kröfu sem kann að stofnast á hendur aðalskuldara í óskilgreindri framtíð. Sem dæmi má nefna að verði frumvarpið að lögum geta bankar, lánastofnanir eða greiðslukortafyrirtæki ekki lengur krafist þess að einstaklingar leggi fram viðskiptabréf, t.d. tryggingarvíxil, með ábyrgðarmönnum áður en umbeðin fyrirgreiðsla fæst því slíkur samningur væri ógildur. Lögin eru ófrávíkjanleg og ákvæði í ábyrgðarsamningi sem fara í bága við ákvæði laganna eru ógild.

Í 3. mgr. er að finna reglur sem þrengja efni ábyrgðarloforðs frá því sem nú er. Í fyrsta lagi verður ekki gerð aðför í fasteign ábyrgðarmanns, sem hann býr í eða fjölskylda hans, ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs. Markmiðið með þessu ákvæði er að undanskilja heimili ábyrgðarmanns aðför vegna krafna sem eiga rætur að rekja til ábyrgðarsamnings. Engu breytir hvort einn eða fleiri eru í ábyrgð, reglan gildir gagnvart öllum.

Heimili ábyrgðarmanns og fjölskyldu hans telst sá staður þar sem fjölskyldan hefur að jafnaði bækistöð. Í því felst að heimilið er sá staður þar sem viðkomandi einstaklingur geymir þá hluti sem honum eru nauðsynlegir í dagsins önn og eru til þess fallnir að halda eðlilegt heimili. Það má orða þessa skilgreiningu svo að heimili manns sé sá staður hvaðan viðkomandi gerir út sína tilveru. Við skilgreiningu á orðinu heimili þarf að sjálfsögðu að athuga hvar viðkomandi einstaklingur hefur skráð lögheimili, en það þarf þó ekki að vera úrslitaatriði. Á hinn bóginn takmarkar reglan ekki að aðför verði gerð í öðrum fasteignum eða eignum ábyrgðarmanns sem ekki eru undanskildar aðför, samanber lög nr. 90/1989, þó svo að aðfararheimild eigi rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs. Ef ábyrgðarmaður heldur tvö heimili skal ekki gerð aðför í þeirri fasteign sem vegur þyngra í heimilishaldi fjölskyldunnar.

Til að því markmiði verði náð að undanþiggja heimili aðför telja flutningsmenn nauðsynlegt að lögfesta reglu um að gjaldþrotaskipta verði ekki krafist á búi ábyrgðarmanns vegna kröfu sem á rót að rekja til ábyrgðarsamnings. Hins vegar ef til gjaldþrotaskipta kemur á búi ábyrgðarmanns njóta ábyrgðarkröfur stöðu samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti.

Reglan takmarkar ekki möguleika kröfuhafa á að ganga að veði ef ábyrgðarsamningur er í formi veðsetningar á eign ábyrgðarmanns.

Ábyrgðarmanni skal afhent eintak af samningnum.

[14:00]

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir almennar athugasemdir þessa frv. og helstu ákvæði þó að það sé ekki tæmandi. En ég held að nauðsynlegt sé, virðulegi forseti, að ræða það örlítið að tilefni þess að við hv. þingmenn leggjum þetta frv. fram er sú staðreynd að hér á landi hefur þróun ábyrgðarloforða og þróun persónulegra ábyrgða verið allt önnur en annars staðar. Hér hefur verið gengið miklum mun lengra í því að einstaklingar tryggi efndir samninga en nokkurs staðar þekkist annars staðar.

Kannski er höfum við Íslendingar gengið mjög langt í því að vernda réttindi þeirra sem kröfur eiga, vernda réttindi eignamanna. Ég held að það megi kannski orða þetta þannig. Við höfum gengið miklum mun lengra og má kannski taka sem dæmi um það að í 71. gr. stjórnarskrárinnar er sérstaklega tekið fram að heimilið sé friðheilagt. Þangað megi ekki fara inn nema með sérstökum dómsúrskurði og skiptir þá litlu máli hvert tilefnið er. En við virðumst snúa þessu við þegar kemur að peningakröfum. Þá nær friðhelgin ekki lengra en svo að viðkomandi kröfuhafa, ef ekki vill betur til, gæti hugsanlega verið heimilt að selja ofan af viðkomandi. Þetta er dálítið merkileg forgangsröðun, virðulegi forseti, en svona langt höfum við gengið í þessum efnum og nú er svo komið að mati flutningsmanna að ekki verður lengur við búið.

Það má taka dæmi frá Bandaríkjunum. Við höfum oft og tíðum horft til þess lands, einkanlega þegar við höfum viljað lögfefsta í samræmi við það meinta frelsi sem þar á að ríkja. En það er dálítið merkilegt, virðulegi forseti, að í Bandaríkjunum eru heimili manna almennt undanþegin gjaldþrotaskiptum, persónulegar eigur, fjölskyldubifreið og ýmislegt fleira. Þeir hafa gengum miklum mun lengra í að vernda einstaklinginn gagnvart því að illa kunni að fara hvað varðar fjárstjórn á persónulegum högum. Það hefur ekki verið talið þjóna samfélagslegum hagsmunum að svipta einstaklinga þessum eignum þó að það komi til að einhverjir tilteknir fjárhagslegir samningar séu ekki efndir. Þeir hafa því gengið miklum mun lengra í að vernda einstaklinginn og ég held að í þessu tilviki ætti að vera okkur mikil fyrirmynd að kanna það hvernig þeir hafa framkvæmt þessa hluti. Þar er almennt talið að ,,consensus`` sé um að það þjóni ekki samfélagslegum hagsmunum að svipta einstaklingana þessum eignum ef samningar ganga ekki upp eða þeir eru ekki efndir.

Ég held að ekki verði hjá því komist, virðulegi forseti, í umræðunni að ræða ögn það samkomulag sem gert var annars vegar af hálfu Sambands ísl. viðskiptabanka fyrir hönd viðskiptabanka, Samband ísl. sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Kreditkorta hf., Greiðslumiðlunar hf. og Neytendasamtakanna og viðskrh. og félmrh. hins vegar. Það er skoðun þess sem hér stendur að sú réttarvernd sem þar er ætlunin að innleiða sé ekki nægjanleg því að þrátt fyrir að tilvist samkomulagsins sem slíks staðfesti í raun og veru tilvist þessa vandamáls og tilraun stjórnvalda til þess að taka á því --- og það ber sérstaklega að þakka --- þá er umhugsunarefni hvort hér sé ekki á ferðinni fölsk vernd ef svo má að orði komast. Þrátt fyrir að ég vilji fagna þessu samkomulagi og tilvist þess, þá er ég hræddur um að sú vernd sem ætlunin er að veita með þessu samkomulagi risti ekki mjög djúpt.

Í fyrsta lagi er langt frá því að öll fjármálafyrirtæki séu aðilar að þessu samkomulagi og má nefna sérstaklega að tryggingafyrirtæki eru það ekki þrátt fyrir að þau séu kannski að verða einhverjir umfangsmestu lánveitendur til einstaklinga í landinu og má í því sambandi nefna bílakaup. Þau eru ekki aðilar að þessu samkomulagi.

Í öðru lagi er meginvernd þessa samkomulags að mínu mati falin í 3. gr. þess en hún hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Sé sjálfskuldarábyrgð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda með þeim aðferðum sem þar tíðkast óski ábyrgðarmaður eftir því áður en hann gengst í ábyrgð.``

Til að þetta sé virkt þarf ábyrgðarmaður því að óska þess sérstaklega. Síðan segir í síðustu málsgrein sömu greinar, með leyfi virðulegs forseta:

,,Tryggt skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Fjármálafyrirtæki ber að upplýsa ábyrgðarmann ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar.``

Ég get tekið undir það, virðulegi forseti, að hér eru fróm markmið á ferðinni og vænlegt ef mögulegt verður að ná þeim. En því miður, virðulegi forseti, segir svo í lok þessa samkomulags og því hefur ekki verið haldið hátt á lofti, með leyfi virðulegs forseta:

,,Samkomulag þetta tekur gildi frá og með 1. maí 1998. Lokamálsliður 3. gr.`` --- þar sem er nú mestu réttarverndina að finna --- ,,öðlast þó ekki gildi fyrr en fjármálafyrirtæki hafa komið á fót kerfi þar sem upplýsingum um fjárhagsmálefni er miðlað að fengnu samþykki viðskiptamanns, sbr. 4. mgr. þessarar greinar, en þó ekki síðar en 1. desember 1998. Komi í ljós að atriði sem ekki eru á valdi fjármálafyrirtækja koma í veg fyrir að þau geti komið á fót kerfi þar sem upplýsingum um fjárhagsstöðu er miðlað, þá geta þau sagt upp 3. gr. samkomulagsins með eins mánaðar fyrirvara.``

Þetta samkomulag er einfaldlega þannig úr garði gert, virðulegi forseti, að ef fjármálafyrirtæki komast að þeirri niðurstöðu að þau geti ekki staðið undir eða komið á fót kerfi sem geti verið liður í því að tryggja viðgang þessa samkomulags, þá geta þau sagt því upp með eins mánaðar fyrirvara. Því er það a.m.k. mín skoðun að lítið sem ekkert sé eftir í þessu samkomulagi sem verndi réttarstöðu einstaklinga í samskiptum þeirra við fjármálafyrirtæki. Það er alfarið á herðum fjármálafyrirtækjanna sjálfra hvort þau vilja halda við þetta samkomulag, enda er það líka svo, virðulegi forseti, að þetta samkomulag er fyrst og síðast loforð fjármálafyrirtækjanna um að vinna að þessu markmiði. Ekkert annað felst í þessu samkomulagi. Þetta er aðeins loforð þeirra fjármálafyrirtækja sem rita undir þetta samkomulag. Reyndar er það svo að tilvist viðskrh., félmrh. og Neytendasamtakanna að þessu samkomulagi breytir í reynd engu. Hér er aðeins á ferðinni einhliða loforð bankana, sparisjóðanna og viðkomandi greiðslukortafyrirtækja um að vinna að þessu markmiði þannig að það er alfarið undir þeim sjálfum komið hvort það markmið næst. Hins vegar er allsendis óvíst hvort einstaklingar geti byggt rétt á grundvelli þessa samnings ef bankarnir og önnur fjármálafyrirtæki fara ekki eftir honum. Það er allsendis óvíst og mun væntanlega ekki koma í ljós fyrr en á það verður reynt fyrir dómstólum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið framsögu minni en á talsvert eftir ósagt og mun því koma að því síðar.