Ábyrgðarmenn

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 14:27:37 (4656)

1998-03-12 14:27:37# 122. lþ. 86.11 fundur 310. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[14:27]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. sem nær allir stjórnarandstöðuþingmenn standa að, eða allflestir. Mér hefur nú löngum farið svo í vetur um þau frv. og tillögur sem hv. stjórnarandstaða hefur lagt fram að ég hef nú ekki verið yfir mig hrifinn, enda hefur það flestallt gengið út á að skrumskæla ástand félagsmála og heilbrigðismála í landinu. En nú bregður svo við að stjórnarandstaðan tekur sig öll saman og flytur þetta mikla alvörumál sem mikil ástæða er til að þakka fyrir. Þegar svo gerist er það fagnaðarefni þegar þeir sem áður fengust við léttúð og útúrsnúninga snúa sér einmitt að svona málum, sem við þekkjum svo vel að hafa valdið, eins og kom hér fram hjá ræðumanni áðan, gríðarlegum vandkvæðum og vandræðum og eru margar sorgarsögur um.

Herra forseti. Við höfum á síðustu árum og síðasta áratug verið að reyna að þróa viðskiptalíf Íslands til frjálsræðis. Við vorum ákaflega og höfum lengst af þessari öld, þrátt fyrir miklar framfarir, verið með t.d. bankakerfið mjög niðurnjörvað. Og það liggur einnig fyrir að því miður hefur þetta sama bankakerfi tamið sér það ábyrgðarleysi, sem ég vil kalla svo, að lána peninga án þess að vera ábyrgt fyrir þeirri gerð sjálft. Í stað þess hafa lántakendur verið að kalla til hina og þessa, venslamenn sína og kunningja og vini til þess að ábyrgjast skuldbindingarnar.

[14:30]

Í reynd á það auðvitað að vera þannig að sá sem lánar peninga tekur áhættu og hann á að leggja fyrir sjálfan sig og meta hvort á að fara í lánveitingar eða ekki. Eins og hefur komið fram áður, herra forseti, eru þær sjálfskuldarábyrgðir skelfilegar sem hafa gengið fram og til baka á undanförnum árum og áratugum á Íslandi og kominn tími til að hreyfa þær og mjög þakkarvert að þetta frv. skyldi vera flutt.

Vegna ummæla síðasta ræðumanns vil ég líka rifja upp, herra forseti, að hið frumstæða lánafyrirkomulag og frumstæða bankakerfi Íslands hefur löngum verið meira og minna í höndum stjórnmálaaflanna. Það hefur eins og öllum er kunnugt lengi tíðkast að stjórnmálaflokkarnir hafa verið að tryggja áhrif sín í ríkisbönkunum því að lánastarfsemin hefur fyrst og fremst átt sér stað í gegnum ríkisbanka, með setu manna í bankaráðum og bankastjórnum. Þar hefur oft gilt sú regla að það eru fyrst og fremst þrír flokkar sem hafa legið undir ámælum fyrir að skipta þessum völdum milli sín, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. Ég tel því fráleitt, herra forseti, nú þegar við ætlum að fara að ræða þetta og taka málið upp af mikilli alvöru eins og við þurfum að gera, að vera með strákslegar yfirlýsingar og fara að metast um hver sé stærsti ábyrgðaraðilinn að því að illa hefur farið og illa þróast sú hefð hvernig menn standa að ábyrgðum skuldbindinga því að þá mundi málið ekki fá neinn framgang. Þá væru menn fastir í karpi og efnið sem væri til umræðu væri nægjanlegt til margra þinga. Gerðum ekki annað fram að aldamótum ef við ætluðum að fara að metast um hvernig til hefur tekist. Hitt er miklu þarfara að hver og einn horfist í augu við það og viðurkenni að við höfum staðið illa að þessum hlutum. Það er þörf á að reyna að finna betrumbót á því. Þetta frv. er sannarlega viðleitni til þess. Það er rétt af okkur í efh.- og viðskn. að taka frv. alvarlega. Við skulum því reyna að leggja okkur alla fram um að fara efnislega í gegnum það og gá hvort við höfum ekki áhrif og völd til að þoka þeim málum í þá átt sem betri getur orðið.