Minning Stefáns Valgeirssonar

Mánudaginn 16. mars 1998, kl. 15:02:59 (4681)

1998-03-16 15:02:59# 122. lþ. 88.1 fundur 254#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Stefán Valgeirsson, fyrrverandi alþingismaður, andaðist í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í fyrradag, laugardaginn 14. mars. Hann var á áttugasta aldursári.

Stefán Valgeirsson var fæddur í Auðbrekku í Hörgárdal 20. nóvember 1918. Foreldrar hans voru hjónin Valgeir Sigurjón Árnason bóndi þar og Anna Mary Einarsdóttir húsmóðir. Hann lauk búfræðiprófi frá bændaskólanum á Hólum vorið 1942, stundaði síðan ýmis störf í Reykjavík 1942--1948, var meðal annars verkstjóri hjá Reykjavíkurborg um skeið. Bóndi í Auðbrekku var hann frá 1948, rak félagsbú með foreldrum sínum og bræðrum, en flest árin 1953--1962 var hann á vetrum við ýmis störf á Suðurnesjum.

Stefán Valgeirsson var alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra í 24 ár samfleytt, frá 1967--1991, sat á 26 þingum alls. Hann var þingmaður Framsóknarflokksins 1967--1987 og þingmaður Samtaka jafnréttis og félagshyggju 1987--1991. Aldursforseti sameinaðs þings var hann frá 1984 og aldursforseti neðri deildar frá 1983.

Auk þeirra starfa sem hér hafa verið talin voru Stefáni Valgeirssyni falin ýmis trúnaðarstörf. Hann var formaður Félags ungra framsóknarmanna í Eyjafirði 1949--1953, formaður Framsóknarfélags Eyfirðinga 1965--1987 og jafnframt í blaðstjórn Dags. Árið 1968 var hann kosinn í hafísnefnd og í aðra hafísnefnd árið 1979. Í bankaráði Búnaðarbankans var hann 1969--1987 og sama tíma í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, formaður beggja frá 1973. Hann var í stjórn Byggðastofnunar 1987--1990. Formaður Samtaka jafnréttis og félagshyggju var hann 1987--1990.

Stefán Valgeirsson var hátt í fimmtugur að aldri þegar hann hóf störf á Alþingi, hafði þá lengi sinnt flokksmálum í heimahögum sínum nyrðra. Frá upphafi var hann ötull við þingstörf, tók oft þátt í umræðum, starfaði í nefndum, gegndi formennsku í landbúnaðarnefnd og síðar samgöngunefnd. Áhugamál hans beindust öðru fremur að bættum hag fólksins í dreifðum byggðum landsins. Jafnrétti og félagshyggja voru honum hugðarefni og þau urðu stefnumál hans og fylgismanna þegar hann nær sjötugur að aldri keppti að endurkjöri til Alþingis og náði kosningu fyrir ný stjórnmálasamtök.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Stefáns Valgeirssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]