Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd

Mánudaginn 16. mars 1998, kl. 15:31:46 (4686)

1998-03-16 15:31:46# 122. lþ. 88.20 fundur 558. mál: #A stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd# frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 122. lþ.

[15:31]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins.

Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd hefur verið til umræðu um nokkurt skeið hjá stjórnvöldum, sem og hjá síldarútvegsnefnd og félögum síldarsaltenda. Á Alþingi 4. maí 1994 var samþykkt ályktun þar sem ríkisstjórninni var falið að skipa nefnd til að gera tillögur sem miðuðu að því að auka nýtingu síldar til manneldis og nýta betur þá möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í veiðum og vinnslu síldar. Nefndin skyldi í þessu sambandi endurskoða lög nr. 62/1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, í þeim tilgangi að efla markaðsöflun fyrir síldarafurðir.

Nefndin skilaði lokaskýrslu og tillögum í mars 1997, þar sem m.a. kemur fram að með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á útflutningsfyrirkomulagi ýmissa sjávarafurða að undanförnu væri æskilegt að sjávarútvegsráðherra væri gefin heimild til að breyta síldarútvegsnefnd í hlutafélag kæmu fram óskir um það síðar.

Haustið 1997 samþykktu svo síldarútvegsnefnd og síldarsaltendafélög að síldarútvegsnefndin beitti sér fyrir því að breyta nefndinni í hlutafélag.

Í ljósi efnis lokaskýrslu skipaðrar nefndar og framangreindra samþykkta síldarútvegsnefndar og síldarsaltendafélaganna þótti ástæða til að móta tillögur um að breyta síldarútvegsnefnd í hlutafélag þar sem núverandi stjórnun á framleiðslu saltsíldar og útflutningi hennar yrði afnumin. Er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að draga úr ríkisafskiptum af atvinnulífinu og afnema lögbindingu sérstaks rekstrarforms um einstök félög en láta almenn ákvæði hlutafélagalaga gilda. Hefur frumvarp þetta verið samið í sjávarútvegsráðuneytinu í samráði við fjármálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

Við ráðstöfun og skiptingu eigna síldarútvegsnefndar þurfti að taka tillit til ákvæða gildandi laga nr. 62/1962, um síldarútvegsnefnd, þar sem sett er það skilyrði að aðeins megi ráðstafa sjóðum síldarútvegsnefndar til hagsbóta fyrir síldarútveginn í landinu. Telja verður að því skilyrði sé best framfylgt með því að stofna hlutafélag sem hefur breiðan og sterkan starfsgrundvöll á sviði síldariðnaðar og með því að styrkja síldarrannsóknir, vöruþróun og markaðsöflun.

Í frumvarpinu er lagt til, í samræmi við það sem að framan hefur verið rakið, að stofnað verði hlutafélag í eigu síldarsaltenda. Er með því komið til móts við samþykktir síldarútvegsnefndar og félaga síldarsaltenda og skýrslu sérstakrar nefndar um síldarmál. Enn fremur má benda á að í eldri lögum var beinlínis gert ráð fyrir að ráðherra gæti heimilað að endurgreiða úr sjóði síldarútvegsnefndar til síldareigenda í réttu hlutfalli við verðmæti síldar.

Í greinargerð með gildandi lögum segir að slík endurgreiðsla sé heimil samkvæmt lögunum þótt sérstakt ákvæði þar um hafi verið fellt niður. Telja verður í ljósi sérstöðu saltsíldariðnaðarins að framtíð félagsins sé best tryggð í höndum síldarsaltenda sjálfra. Hlutafélagið, Íslandssíld hf., yrði samkvæmt frumvarpinu í eigu þeirra síldarsaltenda sem greitt hafa lögmælta söluþóknun af útflutningsverðmæti saltsíldar til síldarútvegsnefndar á tímabilinu 1975--1997. Hafi gjaldþrotaskiptum á búi aðila verið lokið eða félagi verið slitið með öðrum hætti en sameiningu við annað félag áður en frumvarpið verður að lögum, eiga viðkomandi aðilar samkvæmt frumvarpinu ekki rétt til hlutabréfa. Eðlilegt þótti að miða við tímabilið 1975 til nýliðinna áramóta, en banni við að veiða síld í herpinót lauk um áramót 1974/1975 og eru eignir síldarútvegsnefndar að mestu myndaðar á þessu tímabili.

Í samræmi við skýrslu sérstakrar nefndar um síldarmál og samþykktar síldarsaltendafélaganna haustið 1997 er lagt til að hlutur hvers aðila miðist við framlög hans. Er því lagt til að hlutdeild hvers aðila miðist við hlutfall verðmætis útfluttrar síldar viðkomandi aðila á vegum síldarútvegsnefndar að heildarverðmæti samanlagðs útflutnings allra þeirra aðila er talist geta eigendur hlutabréfa samkvæmt frv.

Síldarútvegsnefnd og síldarsaltendafélögin gerðu samþykkt þann 12. febr. 1998 sl. þar sem segir að hlutur hvers aðila eigi ekki aðeins að ráðast af framlögum hans heldur einnig af því tímabili sem framlögin voru innt af hendi. Þótt ekki væri fallist á efni samþykktarinnar að þessu leyti var talið rétt að koma til móts við þau sjónarmið er lágu að baki henni. Framtíð félagsins er best tryggð í höndum þeirra sem mestra hagsmuna hafa að gæta af hagkvæmum rekstri þess. Því er lagt til að Íslandssíld hf. eignist 15% hlutafjár félagsins sem það skal bjóða til sölu innan 18 mánaða frá stofnun þess. Á því tímabili skulu þeir hluthafar er greiddu söluþóknun tímabilið 1. júlí 1992 til 1. jan. 1997 eiga forkaupsrétt að eigin hlutum félagsins. Þá er félaginu heimilt að bjóða sama hópi hluthafa forkaupsrétt að hlutafé sem falt er vegna hlutafjárhækkunar á sama tímabili. Með þessu móti skapast tækifæri fyrir þennan hóp hluthafa til að auka hlut sinn.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að matsnefnd skipuð af sjávarútvegsráðherra meti verðmæti eigna síldarútvegsnefndar. Þá er gert ráð fyrir að hlutafélagið taki, við stofnun félagsins, við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum síldarútvegsnefndar, öðrum en þeim sem renna til sjóðs til síldarrannsókna og í vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóð, sem lagt er til að verði stofnaðir. Rétt þykir að stofnfé Íslandssíldar hf. miðist við að Íslandssíld hf. fái, með hliðsjón af eðli starfseminnar og markaðsaðstæðum, traustan rekstrargrundvöll.

Eins og áður er vikið að er gert ráð fyrir að tveir sjóðir verði stofnaðir, annars vegar síldarrannsóknasjóður og hins vegar vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóður. Lagt er til að síldarrannsóknasjóðurinn renni til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar en síldarrannsóknir eru nær eingöngu stundaðar af Hafrannsóknastofnuninni. Með hliðsjón af því að fé sjóðsins á samkvæmt frumvarpinu alfarið að renna til Hafrannsóknastofnunarinnar þótti eðlilegt að sjóðurinn verði í vörslu hennar. Lagt er til að stofnfé síldarrannsóknasjóðsins nemi 110 millj. kr. Tekið var mið af hlutdeild þeirra aðila sem ekki eiga rétt á hlutafé, þ.e. gjaldþrotaskiptum í búi þeirra er lokið eða félagi þeirra hefur verið slitið með öðrum hætti en samruna við önnur félög, en það eru um 20--25% af eigin fé félagsins. Gert er ráð fyrir að vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóðurinn verði ekki eign ríkissjóðs heldur sjálfseignarstofnun. Lagt er til að stofnfé sjóðsins verði 80 millj. kr. Eðlilegt er að tryggja eftirlit með því að sjóðurinn verði starfræktur í samræmi við skipulagsskrána og er því lagt til að sjóðurinn starfi samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. lög. nr. 19/1988. Þar sem sjóðurinn er stofnaður með lögum er eðlilegt að skipulagsskrá sjóðsins sé undirbúin af sjávarútvegsráðherra. Með stofnun framangreindra sjóða þykir tryggt að fé síldarútvegsnefndar renni til málefna sem eru til hagsbóta fyrir síldarútveginn þannig að nýsköpun, sókn í vöruþróun og markaðssetningu og stöðug og góð rekstrarskilyrði iðnaðarins verði sem best tryggð.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni þessa frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. sjútvn.