Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:01:19 (4703)

1998-03-17 14:01:19# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:01]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það róaði mig mjög mikið að heyra að hv. þm. treysti sér til að taka til afgreiðslu tillögur sem ganga þvert gegn hans eigin, og sér enga meinbugi á því. Hæstv. forsrh. ætti því að geta verið rólegur um afdrif síns máls því helsti andstæðingur hans í þinginu hefur lýst því yfir að hann geti stutt það þótt hann sé á móti því. Það er út af fyrir sig ekkert nýstárleg uppákoma hjá þingmönnum Sjálfstfl. að flytja mál sitt með þeim hætti að þótt þeir séu gjörsamlega öndverðrar skoðunar við mál sem ráðherra úr þeirra flokki flytur horfi mál ráðherrans þó engu að síður til mikilla bóta og þeir muni geta stutt það. Hins vegar lýsir þetta ekki miklu innsæi í sálarlíf kjósenda að halda að menn geti talað svona til eilífðarnóns.