Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:26:09 (4707)

1998-03-17 14:26:09# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:26]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst miður að hv. þm. gerði lítið úr sveitarfélögunum og gaf til kynna að þar færu fremur nærsýnir menn sem varla sæju fram fyrir nefið á sér þegar þeir væru að tala um hagsmunamál af þessu tagi. Við eigum auðvitað að hlusta á sveitarstjórnarmennina sem hafa mjög víðtæka reynslu í þessum málum.

Hv. þm. nefndi sérstaklega að ekki væri öruggt að þjóðþing framtíðarinnar kynnu ekki að gera hér á breytingar. Það er alveg rétt. Við getum ekki svipt þjóðþing framtíðarinnar þeim rétti og viljum það ekki. En engin ástæða er til að ætla að þjóðþing framtíðarinnar verði verr stemmt í garð íbúðareigenda en við sem nú sitjum á þingi.

Í þriðja lagi óttaðist hv. þm. að hv. þm. Pétur Blöndal mundi ná hreinum meiri hluta og kasta þessu kerfi fyrir róða. Ég hef mína skoðun á því hvað þá mundi gerast, en ekki var nefnt hvað mundi gerast ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon næði hreinum meiri hluta á þingi. Mundi hann þá kasta frv. fyrir róða eða mundi hann halda lögunum óbreyttum? Eða mundi hann fara að hringla í því eins og hann óttaðist mikið sjálfur að mundi gerast?

Svo nefndi hv. þm. líka að hann hefði tekið eftir því að þeir sem ættu mjög margar íbúðir og leigðu þær út væru með sérstaklega miklum gleðibrag um þessar mundir. Ég hef ekki hitt þá menn en þá átta menn sig á því í hvaða umgengnishópum hv. þm. er.