Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:40:01 (4714)

1998-03-17 14:40:01# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi ætla ég að ræða um fjölgun valkostanna. Það er út af fyrir sig alveg rétt að það sem ýmsir reiknuðu með hafi ekki gengið eftir, þ.e. að menn nýttu sér í jafnmiklum mæli og áætlað var þá möguleika sem kaupleiguíbúðirnar voru. Varðandi húsnæðissamvinnufélögin þá hefur fyrst og fremst staðið á því að menn hafa ekki fengið úthlutað heimildum til bygginga nema í mjög takmörkuðum mæli. Ég veit ekki betur en að allan tímann hafi langir biðlistar verið hjá helstu húsnæðissamvinnufélögunum í landinu eftir því að komast inn í kerfið. Það er t.d. langt frá því að þeir hafi getað uppfyllt óskir félagsmanna sinna um íbúðir. Vilyrði fyrir lánum til þess að byggja hafa verið í mjög takmörkuðum mæli.

Þegar ég var að tala um kostnað og kom því ekki að í fyrra svari mínu, þá var ég t.d. að tala um kostnað við skipti á íbúð. Mér sýnist alveg ljóst að þar hleypur kostnaðurinn upp frá því sem verið hefur. Hinum fasta kostnaði þess sem fer í íbúð í félagslega kerfinu hefur af skiljanlegum ástæðum verið haldið í lágmarki. Nú fer þetta út á markaðinn sem tekur fulla þóknun. Það verður því mun dýrara fyrir þá sem í hlut eiga.

Varðandi greiðslumatið, þá er alveg rétt að margir hafa fundið sér íþrótt í að benda á það að mörkin væru hærri hjá lágtekjufólkinu inni í félagslega kerfinu en úti á almenna markaðnum. En þar er ólíku saman að jafna. Þau kjör sem sá sem er í félagslegri eignaríbúð býr við eru önnur vegna innlausnarskyldu sveitarfélaganna. Þannig er staða þessa fólks allt önnur og þannig hefur verið reynt að stilla þetta af.

Greiðslumatið verður afgerandi um þá fyrirgreiðslu sem menn fá út úr þessu kerfi og hve margir komast inn í það. Ég heyrði dæmi frá einu sveitarfélagi um daginn. Samkvæmt því áttu 10% af þeim sem voru á skrá eða (Forseti hringir.) á biðlista hjá sveitarfélaginu að standast greiðslumatskröfurnar í húsbréfakerfinu eins og þær eru í dag. Tíundi hver hefði komist inn í kerfið.