Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:11:48 (4720)

1998-03-17 15:11:48# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:11]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég gæti trúað því að fleirum væri farið eins og mér núna, að koma á óvart þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Að minnsta kosti var það svo að í langri húsnæðisumræðu í síðustu viku fagnaði ég einu atriði mjög mikið og það voru svokallaðar samtímagreiðslur vaxtabóta. Þó að menn leggi vissulega þann skilning í samtímagreiðslur að þær séu frekar mánaðarlegar greiðslur, þá er það mjög mikil bót að vaxtabætur eru greiddar út oftar ári en verið hefur. Það eru 3--4 ár síðan farið var að hreyfa því og leita eftir því við fjmrn. að skoðaðir yrðu möguleikar á samtímagreiðslum þannig að það nýttist betur fólki í húsnæðiskaupum.

Það er svo skrýtið að þrátt fyrir að maður hafi staðið hér og fagnað þessari gjörð þá var það ekki leiðrétt að hér var í raun og veru aðeins átt við félagslegu lánin, að enn væri óljóst hvernig yrði með alla þá sem eru á húsnæðismarkaði og fá vaxtabætur árlega. Ég harma, virðulegi forseti, að í svo langri og ítarlegri umræðu þar sem þetta kom oftar en einu sinni fram, skuli ekki hafa verið upplýst hvernig málum er háttað með þá sem þegar eru komnir í kerfið.

Auðvitað er frv. sem hér er lagt fram og mælt hefur verið fyrir hluti af þeirri stóru og löngu húsnæðisumræðu sem við tókum í síðustu viku og mjög stór hluti þeirrar pólitísku húsnæðisstefnu sem ríkisstjórnin er núna að setja fram. Þess vegna vekur það sérstaka athygli að þessu stóra máli, vaxtabótunum, skuli fylgt úr hlaði með fimm mínútna ræðu. Það er öll skýringin. Lesið var að nokkru leyti upp úr greinargerðinni og það er öll skýringin sem ríkisstjórnin telur að þurfi að koma á framfæri varðandi þessa miklu pólitísku breytingu að flytja beina niðurgreiðslu á lánum til félagslegra íbúða yfir í vaxtabætur.

Hitt er svo annað og allt annað mál að hæstv. forsrh. er vorkunn að taka þátt í þessari umræðu og taka það að sér að flytja þetta mál í fjarveru fjmrh. því auðvitað er hann alls ekki í stakk búinn að taka djúpa pólitíska umræðu um húsnæðismál eða vaxtabætur.

[15:15]

Þegar þetta frv. kom á borð okkar þingmanna þá leit það sakleysislega út við fyrstu sýn. Satt best að segja taldi ég þegar ég var búin að lesa þetta frv. að núna í upphafi kerfisbreytingarinnar ætti að niðurgreiða með vaxtabótunum nokkuð líkt og niðurgreiðsla vaxta er í félagslega kerfinu í dag. Þegar ég las dæmin á bls. 3, virðulegi forseti, sem eru svo vanbúin að ein lína er höfð um hvert tilfelli, að vísu eru sjö dæmi um hjón sem eru með misjafnar tekjur og misjafnt húsnæðisverð, tvær línur, tvö dæmi um einstætt foreldri og tvær línur, tvö dæmi um einstaklinga. Þrátt fyrir það ef maður tók þessi dæmi og leit bara á tölurnar og gaf sér að hlutfallslega væri þetta staðan hjá öllum og las greinargerðina var full ástæða til að trúa því að niðurgreiðslan með vaxtabótum yrði svipuð í upphafi og í kerfinu. Ég hefði alveg skilið að ríkisstjórnin hefði valið að gera sem minnstar breytingar þar á í upphafi vegna þess að auðvitað vitum við að allt önnur staða verður til þess að gera breytingar á þessu í gegnum vaxtabæturnar síðar ef menn vilja föndra meira við það hvað á að greiða niður af húsnæðislánum fólksins í landinu.

Um leið og ég tek undir, virðulegi forseti, með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að dæmin eru fátækleg er það líka staðreynd að það virðist sem ákveðnir hópar fái allt öðruvísi niðurgreiðslu í gegnum vaxtabótakerfið en aðrir. Við getum tekið þessi sjö dæmi fyrir hjón og það virðist nokkurn veginn vera líkt hver staða þess fólks verður miðað við þær tekjur og það húsnæðisverð sem þar birtist en húsnæðisverðið, virðulegi forseti, er á bilinu frá 4,5 millj. og upp í 8 millj. Það virðist vera að viðkomandi komi nokkuð líkt út í vaxtabótunum eins og þær eru settar fram hér.

Svo er það einstæða foreldrið. Þá er staðan önnur. Ég kemst ekki hjá því, virðulegi forseti, að sú hugsun sækir á að höggvið sé í sama knérunn, þ.e. ekki þarf að passa þann sem minnst hefur. Við bentum á það í húsnæðisumræðunni að mjög margir detta utan við kerfið eftir breytinguna og við fórum ítarlega gegnum það og því fólki og þeim fjölskyldum sem okkur sýnist að geti verið hundruð fjölskyldna er vísað á vanbúinn leigumarkað þar sem félagslegar leiguíbúðir eru alls ekki nægilegar og þar sem átakið a.m.k. í viðmiðunarumsögn fjmrn. eins og hæstv. forsrh. komst svo skemmtilega að orði er 50 íbúðir næstu tvö árin.

Þegar ég nefni þetta má ég líka til með að koma inn á annað sem hefur áhrif á hverjir detta út. Við settum fram dæmi eftir að hafa skoðað þessi mál nokkuð ítarlega og bentum á hundruð fjölskyldna sem fengju ekki inni í kerfinu en þá var líka miðað við þau mörk á greiðslubyrði sem gilda í kerfinu í dag. Þingmaðurinn Arnbjörg Sveinsdóttir hafði orð á því að það væri sérkennilegt að lágtekjufólkið bæri lægri greiðslubyrði af því að mörkin eru 28% á meðan greiðslubyrðin í almenna húsnæðiskerfinu er 18%, það væri undarlegt að ætla fólkinu að komast af með miklu hærri byrði. Staðreyndin er sú, og það sjá allir sem skoða það sem við höfum verið að setja fram, að vanskilin eru ótrúlega lítil hjá mestu lágtekjuhópunum og sýnt var fram á það í umræðunni að hjá 600 fjölskyldum sem höfðu fengið 100% lán og margar þeirra á þessum launum, kannski 60--70 þús. kr. mánaðartekjum, voru vanskilin ekki nema 17%. Ég held að það mætti bera þetta saman við vanskil mjög víða til þess að sýna fram á að þarna væri ekki verri staða en hjá öðrum.

Þá er mjög alvarlegt, virðulegi forseti, þegar við höfum farið yfir þetta miðað við greiðslubyrðina eins og hún er í dag, að er enn þá öllum hulið við hvaða greiðslubyrði á að miða vegna þess að félmrh. hefur sagt að nefnd sé að störfum sem eigi að meta hvaða hlutfall verði miðað við í hinu nýju kerfi. Það liggur fyrir að það er ekkert víst að það verði 18% eða 28%, hvort það verður eitthvað þar á milli hefur ekki komið fram og skekkir enn myndina í vanbúinni umræðu sem við höfum þó reynt að skýra eins og okkur er unnt. Í þessari stöðu hljóta allir að sjá hversu alvarlegt það er að dæmin sem Jóhanna Sigurðardóttir fór yfir í ræðu sinni áðan sýna hækkun útgjalda fólks á þessum svokölluðu félagslegu kjörum um allt að 60--70 þús. kr. á ári. Þarna hafa verið tekin dæmi um einstæða foreldra með eitt eða tvö börn þar sem útgjöldin til hinnar félagslegu íbúðar hækka úr 162 þús. í 214 þús., þ.e. um 52 þús. kr. á ári en þetta er 32% hækkun hjá þessum hópi, virðulegi forseti, og ég bið þingmenn að taka eftir því.

Þá kemur hæstv. forsrh. og segir: Þetta er svo tekjulágur hópur. Það er vafamál hvort á að vera að hjálpa fólki með svo lágar tekjur inn í íbúðir vegna þess að fólk með lágar tekjur á ekki möguleika á því að koma sér upp íbúð. En ef fólkinu er gert það kleift þrátt fyrir það --- (Forsrh.: Ég sagði þetta ekki.) Ég skildi ráðherrann svo og ég biðst velvirðingar á því ef ég hef skilið hann rangt að það ætti ekki að vera að leggja það á fólk með 1 millj. kr. í tekjur --- (Forsrh.: Ég tók dæmi upp á 8 millj. kr. íbúð.) Sem betur fer er enn hægt að fá, virðulegi forseti, sæmilega viðunandi íbúðir fyrir innan við 8 millj. kr. en það er alveg ljóst að fyrir fjölskyldu með börn er ekki hægt að fá mjög góðar íbúðir ef þær eru komnar mikið niður fyrir 6 eða 5,5 millj. eins og tekið er dæmi af. En engu að síður sýnist mér að það eigi að gera þessu fólki kleift að fara inn í kerfið. Þá er alveg ljóst að hópur með þessar tekjur og íbúð upp á 7 millj. kr., við skulum bara gefa okkur að þetta sé einstætt foreldri með tvö til þrjú börn, þá hækka útgjöld hjá slíkum einstaklingum um 52 þús. kr. og það er 32% hækkun. Þar sem forsrh. hefur oft og tíðum verið nokkuð mikill talsmaður lítilmagnans, láglaunahópanna og komið fram og sagt ,,svona gerir maður bara ekki`` þá verð ég að viðurkenna að mér finnst fremur hastarlegt fyrir þann sama ráðherra að þurfa að mæla fyrir frv. sem hækkar byrðina á láglaunafólki um þessar prósentur á ári og um þessa fjárhæð sem er afskaplega há fyrir hópa af þessu tagi.

En hvað ætli þetta sé stór hópur og hvaða hópur er þetta? Við vitum að þetta er láglaunahópur. Við vitum að þetta eru einstæðir foreldrar með börn. Í dæmunum eru sem sagt tvær línur um einstætt foreldri. Annars vegar er hann að kaupa íbúð sem kostar 5,5 millj. og hins vegar 6 millj. Það kemur upp úr kafinu að um 60% þeirra sem eiga heima í þessum hópi búa í íbúðum sem eru dýrari en þetta. Ekki er víst að þetta fólk hafi endilega valið það. Það er bara verðið sem er t.d. á höfuðborgarsvæðinu, 60% af hópnum. Þetta er m.a. það sem er alvarlegt í þessu dæmi, í þessu frv. sem er svo vanbúið að við þingmenn, sem viljum gera vel og fara raunhæft niður í þessi mál, eigum mjög erfitt með það og verðum að leita langt út fyrir til þess að láta vinna fyrir okkur dæmi sem byggjandi er á.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir óskaði hæstv. forsrh. til hamingju með að hæstv. félmrh. framfylgir stefnu Sjálfstfl. Af því að forsrh. hafði ekki tök á að vera viðstaddur umræðuna um húsnæðismál sem stóð lungann úr þremur dögum, þá langar mig, virðulegi forseti, að upplýsa hann um að við höfum lesið upp úr landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. í húsnæðismálum og þar er þetta allt. Þar eru áformin um að leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins, þar eru áformin um að sameina Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins í einn Íbúðalánasjóð og þar er reyndar ákvæði um að þann sjóð eigi að einkavæða árið 2000. Mér dettur ekki í hug að það gerist árið 2000 af því að þetta mál er svo seint á ferðinni á kjörtímabilinu en vissulega gerum við okkur grein fyrir því hvaða boðskapur felst í gjörðunum og hvað muni gerast einhvern tíma síðar á næsta kjörtímabili, ef guð lofar, séð frá sjónarhóli þeirra sem stjórna hér. Þess vegna er ég ekki að segja forsrh. neinar fréttir þegar ég upplýsi hvað er í stefnuskrá Sjálfstfl. en ég hef gaman af að tjá mig um það að í stefnuskrá Framsfl. er ekkert um þessa stefnu að finna enda hefur það vakið athygli okkar þingmanna að framsóknarmennirnir hafa ekki sést við umræðuna um húsnæðismál fyrr en í dag að Siv Friðleifsdóttir situr þessa umræðu og fylgist með. Framsóknarmenn hafa ekki mikið látið sjá sig við umræðuna og alls ekki tekið þátt í henni en það hafa nokkrir sjálfstæðismenn gert og einn fagnað alveg sérstaklega.

Það hefur líka komið fram að húsnæðisnefndir eru að skoða hverjir af biðlistunum komast inn í nýja kerfið og við fyrstu sýn virðast alvarlegar niðurstöður blasa við. Vissulega munum við afla okkur útreikninga frá sem flestum þeirra og upplýsinga þegar þessi mál liggja ítarlega fyrir.

Virðulegi forseti. Mér sýnist að þetta húsnæðisfrv. og breytingin á húsnæðiskerfinu sem hér er verið að gera sé miklu stærri breyting en stjórnarliðar gera sér almennt grein fyrir. Stór hópur fjölskyldna sem áður fékk inni í félagslega kerfinu fellur út og það er stór hópur fjölskyldna sem er öðruvísi staddur en þeir sem eru í hinu hefðbundna félagslega kerfi sem hefur fengið inni í kaupleiguíbúðunum en þær hafa verið afar mikilvægar fyrir vinnusamt duglegt fólk sem hefur lent í einhverjum alvarlegum áföllum, jafnvel uppáskriftum fyrir ættingja og hefur misst eigur sínar og á ekki inni í bankakerfinu vegna þess. Þetta fólk hefur komist inn í almennu kaupleiguíbúðirnar, fengið fimm ára leigusamning með samningi um kaup ef fólk kýs svo. Þetta fólk á allt að svara því fyrir árslok hvort það ætli að kaupa íbúðirnar eða ekki þó það sé nýkomið inn á þennan fimm ára samning. Þessu fólki er öllu úthýst í nýja kerfinnu vegna þess að þetta fólk sem er með skuldir á bakinu út af áföllum sem það hefur jafnvel ekkert ráðið við sjálft á engin 10% til þess að leggja í húsnæði. Hópurinn sem fellur út er þess vegna margbreytilegur og hann er stór.

Bent hefur verið á til viðbótar að einstæðir foreldrar verða fljótlega varir við það þak sem er í vaxtabótakerfinu að þegar íbúðarverð fer upp fyrir 6 millj. kr. fá þeir þar með minni niðurgreiðslur. Það er mjög alvarlegt, virðulegi forseti, að það skuli vera komið með þetta frv. svo seint á þingtímanum og það liggur greinilega fyrir að það eigi að afgreiða málið þrátt fyrir að við höfum bent á vankantana. Við höfum bent á mjög alvarlega ágalla á frv. og hversu mikilvægt er að þetta sé skoðað að það sé reiknað út hvaða hópar falla utan við. Hvað þýðir þetta nýja kerfi og að unnið sé vel að þessu máli? Ég er þeirrar gerðar að ég held alltaf að hvar í flokki sem fólk er og hvaða stefnu sem það hefur vilji það búa til kerfi og búa til samfélag þar sem allir eiga möguleika og þar sem öllum er ætlað pláss. Þess vegna er sannfæring mín að það sé líka vilji þessarar ríkisstjórnar og hæstv. forsrh.

[15:30]

Þegar skipt er um kerfi er afskaplega erfitt að gera breytingarnar það skipulega að maður sé viss um að rétt sé að farið. Í húsnæðisumræðunni lýsti ég því hvernig ég, sem fulltrúi flokks míns í efh.- og viðskn. og stjórnarliði, átti þátt í að gera breytingar á vaxtabótakerfinu. Þar var tekist á en ekki hlustað nægilega vel á gagnrýnisraddir. Þegar ég settist svo niður yfir útreikninga og hið nýja kerfi hafði verið lögfest sá ég dæmi sem ég ætla eftir þessa umræðu að gefa forsrh. Í því voru tekjur hjóna innan við 2,5 millj., eignirnar um 8 millj., skuldir vegna íbúðar 3 millj. og vaxtagreiðslur tæpar 350 þús. Með lögunum sem ég tók þátt í að breyta fóru vaxtabætur þeirra úr 166.680 kr. niður í 63.822 kr. Ég ætlaði ekki að gera þetta. Ég gerði þetta.

Þegar ætlunin er að breyta stórum samfélagsþáttum þarf tíma. Ég vildi óska að sérhver ríkisstjórn setti sér það markmið að koma með slíkt frv. svo snemma að tími gefist til að skoða málið frá öllum hliðum. Þannig væri öllum ljóst hvort þeir væru að gera rétt. Það er ósk mín og ég hvet forsrh. til að beita sér fyrir því að skoða frv. í sumar og leggja það fram í nýjum búningi í haust.