Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:20:49 (4734)

1998-03-17 16:20:49# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er verið að draga úr þeim kostnaði sem ríkissjóður hefur haft af félagslegri aðstoð við lægst launaða fólkið á Íslandi og verið að velta þeim kostnaði yfir á sjálfa einstaklingana og sveitarfélögin. Ég á eftir að sjá hvort það er svona víðtækur stuðningur hjá sveitarfélögunum eins og hæstv. forsrh. nefnir. Ég hef orðið vör við það hjá sveitarstjórnarmönnum þegar þeir eru farnir að lesa frv. og hvaða áhrif þetta hefur, við skulum tala um bara á fjárhag sveitarfélaganna, þá renna á þessa sveitarstjórnarmenn tvær grímur. Þeir velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á fjárhag sveitarfélaganna ef mikill fjöldi þeirra sem eru í félagslegum íbúðum og kaupskylda hvílir á, ef fólk vill fara að óska eftir því að sveitarfélögin kaupi inn þessar íbúðir og vill fara inn í nýja kerfið. Hvaða holskefla gæti þar komið yfir sveitarfélögin?

Sveitarstjórnarmenn velta líka fyrir sér hvort verið sé að hætta niðurgreiðslum á lánum til leiguíbúða eins og lesa má út úr frv. Þeir velta fyrir sér hvað það þýði í útgjöldum í húsaleigubótum ef mikill þrýstingur skapast á aukningu í leiguíbúðir þar sem fjöldi fólks hefur ekki greiðslugetu inn í nýja kerfið. Þeir velta líka fyrir sér hvort það sé réttmætt fyrirkomulag að við eigum að greiða 5% framlag í varasjóð sem á m.a. að renna til þess að greiða niður skuldir annarra sveitarfélaga. Ég heyri að það er ýmislegt sem sveitarstjórnarmenn eru að skoða núna. Ég er ekki viss um að sá víðtæki stuðningur hæstv. ráðherra nefnir verði til staðar þegar upp er staðið. Við skulum athuga það.

Að síðustu, herra forseti, veldur það mér miklum vonbrigðum að hæstv. forsrh. vilji ekki einu sinni skoða hvort nauðsynlegt sé að breyta hámarksgreiðslunni á vaxtabótunum, þakinu, enda þótt honum sé sýnt fram á það með dæmum að einstaklingar og einstæðir foreldrar verða miklu verr settir í þessu nýja vaxtabótakerfi en með niðurgreiðslum. Mér finnst óvanalegt að heyra hæstv. forsrh. tala svona vegna þess að ég hef orðið vör við það í samskiptum við hæstv. forsrh. að ef hann sér fyrir framan sig óréttlæti að því er varðar þá hópa sem eru verr settir, þá neitar hann a.m.k. ekki fyrir fram að skoða hvað er til í því máli. Mér finnst það því ekki boða gott, herra forseti, við 1. umr. málsins ef hæstv. forsrh. aftekur að breyta því hámarksþaki sem er á vaxtabótunum jafnvel þó sýnt sé fram á að það komi mjög illa við ákveðna hópa í þjóðfélaginu.