Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:51:02 (4741)

1998-03-17 16:51:02# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að nú sé einmitt rétti tíminn að ræða við verkalýðshreyfinguna. Ég vænti þess að það leiði til einhverrar niðurstöðu. Það getur vel verið að ekki verði allir ánægðir eða ég geti ekki orðið við öllu sem þeir koma til með að leggja til en við erum að skoða hlutina saman og fara yfir þá í bróðerni. Og ég er alveg fús að taka tillit til þeirra hugmynda sem þar koma fram.

Það verður miklu auðveldara og sanngjarnara fyrir fólk að komast út úr nýja kerfinu en í gamla kerfinu. Maður sem vill fara út úr félagslega kerfinu í nýja kerfinu, greiðir upp viðbótarlánin og selur síðan íbúðina á markaðsverði, þ.e. á því verði sem hægt er að fá fyrir hana á frjálsum markaði eða ef einhver á rétt á félagslegu láni getur hann með samþykki Íbúðalánasjóðs yfirtekið það. En það er ekki sams konar fyrirkomulag eins og nú er þar sem sveitarfélagið tekur við íbúðinni en getur síðan reiknað það niður samkvæmt fastsettum fyrningarreglum, þannig að viðkomandi fær ekki sannvirði fyrir íbúðina sína. Eitt af því sem vantar inn í þessa umræðu er það hvernig farið hefur verið með fólk þegar það hefur verið að skila íbúðunum sínum, þá hefur það komist að því að eignarhlutur þess var lítill eða jafnvel minni en enginn.