Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 17:20:19 (4749)

1998-03-17 17:20:19# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[17:20]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði mig um það hvort ég teldi að hægt væri að hækka vexti á hinum eldri lánum. Ég lít þannig á að um tæknilega spurningu sé að ræða og ég veit ekki annað en að til sé fullfær leið til þess og í skuldabréfum öllum sé gert ráð fyrir því að slíkt geti gerst. En eins og hæstv. félmrh. sagði þá hefur engin slík ákvörðun verið tekin og engin slík ráðagerð verið höfð uppi.

Vegna umræðunnar um hina liðnu tíð varðandi sjóðina og stöðu þeirra þá vek ég athygli á því að þetta frv. og þessi málatilbúnaður allur breytir ekki skuldbindingum ríkisins gagnvart hinum gömlu sjóðum. Við stöndum ekkert verr gagnvart þeim. Við höfum þurft á Alþingi á fjárlögum að áætla fjármuni til að mæta þeim skuldbindingum. Við þurfum áfram að standa við okkar skuldbindingar. Á hinn bóginn er það tekið sérstaklega fram að við losnum við að bæta við 275 millj. kr. árlega vegna nýrra lána úr þeim sjóðum. Það kemur á móti auknum kostnaði af hinu nýja kerfi. Þessi mál liggja því að mínu mati afar skýrt og glöggt fyrir þinginu til ákvörðunar. Það er einlæg skoðun stjórnarmeirihlutans að þessi málatilbúnaður sé mjög til bóta fyrir þá sem eiga að njóta húsnæðiskerfisins og þess vegna viljum við endilega að málið geti gengið eins hratt fyrir sig eins og verða kann þannig að þetta kerfi, breytt og betra, komist sem fyrst til gagns.