Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 17:25:43 (4752)

1998-03-17 17:25:43# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[17:25]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að aðalvandi þessarar kerfisbreytingar til að byrja með, ef hún verður samþykkt á annað borð, verði sá fyrstu árin að fólk mun ekki þola að búa við algerlega tvenns konar kerfi í sams konar íbúðum. Menn munu bera sig saman í kerfunum. Ég er sannfærður um að fólk muni ekki una því að búa við gjörsamlega ólík kerfi.

Ég held að þeir sem undirbjuggu þetta mál hafi ekkert vitað um hvað þeir voru að fjalla vegna þess að það segir sig algjörlega sjálft að fólk mun ekki una því að láta setja sig við tvenns konar aðstæður að því er þessa hluti varðar.

Og svo að lokum þetta í þessu andsvari, herra forseti: Það er alveg ljóst að vandinn vegna liðins tíma og tekinna lána eykst ekki með þessu frv. En hann er til. Og hann er u.þ.b. 8--10 milljarðar kr. ef maður horfir á líftíma þeirra lána sem eftir eru. Það á eftir að gera ráð fyrir þeim peningum. Ráðherrarnir segja: ,,Ekki vaxtahækkun.`` Þeir segja: ,,Ekki skattar.`` Þeir segja: ,,Ekki verður gengið á eigið fé sjóðsins.`` Þá segi ég: Hvaða galdrar ætla þeir að nota til að leysa þennan vanda upp á 8--10 milljarða kr.? Ef ekkert af þessu þrennu má gera hvað er þá eftir?