Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 17:33:28 (4757)

1998-03-17 17:33:28# 122. lþ. 89.3 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[17:33]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Frv. er að finna á þskj. 942 og er það 553. mál þingsins.

Í frumvarpi þessu er að finna nokkrar mikilvægar breytingar á þeim reglum sem gilda um skattlagningu atvinnurekstrar o.fl. Auk þessa frv. er gert ráð fyrir að fram komi á þessu þingi skattafrumvörp sem fjalla um málsmeðferð í skattkerfinu og samskipti skattkerfisins og skattborgaranna. Þau mál hafa verið til sérstakrar athugunar í ráðuneytinu um nokkurt skeið. Frumvörp þau sem um ræðir eru annars vegar um bindandi álit ríkisskattstjóra og hins vegar frumvarp sem gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á þeim reglum sem gilda um yfirskattanefnd og verður væntanlega lagt fram síðar á þessu þingi.

Auk þeirra frumvarpa eru önnur mál enn í vinnslu í fjármálaráðuneytinu með það fyrir augum að verða lögð fram síðar á þessu þingi eða á því næsta. Má þar t.d. nefna viðurlagaákvæði skattalaga og réttaráhrif úrskurða í skattkerfinu og frekari breytingar með tilliti til ýmissa tillagna sem kynntar hafa verið að undanförnu af hagsmunaaðilum, svo sem samsköttun móður- og dótturfyrirtækja og skattaleg atriði varðandi starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis.

Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að gerðar verði umtalsverðar breytingar á skattlagningu á arðgreiðslum milli fyrirtækja og lækkun á skatthlutfalli þeirra, í öðru lagi að bætt verði inn í lögin ákvæði er banni fyrirtækjum með beinum hætti að gjaldfæra í rekstri sínum mútur eða sambærilegar greiðslur til opinberra aðila og í þriðja lagi verði félögum í atvinnurekstri heimilað að fresta tekjufærslu hagnaðar af sölu hlutabréfa og að lokum eru nokkrar breytingar sem snúa að framkvæmd og túlkun laganna.

Í athugun hafa verið fleiri breytingar, m.a. að heimila afskrift keyptrar viðskiptavildar og mun það væntanlega koma til athugunar í hv. efh.- og viðskn.

Megintilgangur þeirra breytinga sem lagðar eru til á skattlagningu lögaðila með tilliti til arðs, er að koma hér á betra og markvissara fyrirkomulagi en nú er. Breytingunum er ætlað að koma í veg fyrir að hagnaður af atvinnurekstri verði skattlagður meira en aðrar tekjur vegna tvísköttunar, þ.e. skattlagningar hjá því fyrirtæki þar sem hagnaðurinn myndast og síðan aftur hjá eiganda hlutafjárins. Skattlagning hlutafélaga hefur verið með þeim hætti að heimilt er að draga frá skattskyldum tekjum útborgaðan arð að tilteknu hámarki, sem upphaflega var 15% en hefur nú verið lækkað í 7% af nafnverði hlutafjár, þar með talin útgefin jöfnunarhlutabréf. Skatthlutfall hlutafélaga síðustu árin hefur verið 33% af skattskyldum tekjum.

Í þeim tilgangi að samhæfa skattlagningu hagnaðar af rekstri hjá hlutafélagi og arðs í hendi hluthafa og til að koma í veg fyrir margsköttun við arðgreiðslur á milli hlutafélaga er í frumvarpinu gert ráð fyrir tiltölulega einföldu kerfi. Í grundvallaratriðum byggist það á því að hagnaður hlutafélags verði skattlagður í því hlutafélagi sem hann myndast upphaflega. Eftir það geti hann gengið á milli hlutafélaga án frekari skattlagningar. Verði hann á hinn bóginn greiddur út til annarra aðila verði lagður á hann 10% fjármagnstekjuskattur. Sama regla er látin gilda um arð sem kemur frá útlöndum, þó með því skilyrði að sá hagnaður sem að baki arðsúthlutunni stendur hafi fengið svipaða skattlagningu og hagnaður hlutafélaga hér á landi. Er það skilyrði sett m.a. í þeim tilgangi að gera þeim sem fjárfesta í fyrirtækjum sem skrásett er í erlendum skattavinjum ekki skattalega hærra undir höfði en öðrum.

Þá er í frv. eins og áður segir ákvæði sem heimila hlutafélögum að fresta skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum er þau kaupa önnur slík innan tveggja ára frá sölunni. Með því er í senn komið í veg fyrir að fjármagn sé, af skattalegum ástæðum, bundið í tilteknum hlutabréfum, en jafnframt er hvatt til áframhaldandi hlutabréfaeignar. Skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum er um margt flóknara mál en þegar um arð er að ræða. Að þessu sinni eru ekki lagðar til frekari breytingar á skattlagningu söluhagnaðar hjá lögaðilum en málið er áfram til athugunar.

Tilgangurinn með þessum breytingum er ekki að breyta skatttekjum ríkisins. Af þeim ástæðum er lagt til að samfara þessum breytingum verði skatthlutföll lækkuð nokkuð til þess að tryggja að með breytingunum verði skattbyrði atvinnurekstrar ekki aukin og til að skapa eðlilegt samræmi í skattlagningu einstaklinga og hagnaðar þeirra af mismunandi rekstrarformum.

Í frv. er lagt til að skatthlutfall hlutafélaga og sambærilegra aðila verði lækkað úr 33% í 30% og skatthlutfall annarra lögaðila, svo sem sameignarfélaga, verði lækkað úr 41% í 38%. Athugun á væntanlegum áhrifum þeirrar breytingar sem í frv. felast bendir til þess að gera megi ráð fyrir að tekjuskattur hlutafélaga lækki um nálægt 150 millj. kr. Við það bætist að tekjuskattur sameignarfélaga mun lækka um nálægt 45 millj. kr. Í heild má því gera ráð fyrir að lækkun á tekjusköttum fyrirtækja nemi tæplega 200 millj. kr.

Vil ég þá, herra forseti, víkja að einstökum greinum.

1. gr. er til fyllingar og skýringar þeim reglum sem gilda um takmarkaða skattskyldu en felur ekki í sér efnisbreytingu.

Með 2. gr. er lagt til að felld verði niður sú regla að reikna beri álagsstuðul á vexti af verðbréfum þegar þau eru ekki með árlegri greiðslu. Útreikningum þessum var ætlað að jafna skattlagningu ávöxtunarforma sem bundin eru til lengri tíma og þeirra þar sem vextir eru greiddir árlega. Komið hefur í ljós að ýmsum vandkvæðum er bundið að ákvarða slíkan stuðul og að mjög flókið yrði að framkvæma þessa jöfnun. Þar sem hér er ekki um að ræða verulegar fjárhæðir né stórfelldan mismun á skattlagningu er lagt til að skylda til útreiknings og útgáfu þessa sérstaka stuðuls verði lögð niður.

Í 3. gr. er hlutafélögum og öðrum félögum með takmarkaða ábyrgð heimilað að fresta skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum með því að kaupa önnur innan tveggja ára frá því að hin fyrri voru seld. Séu ný bréf ekki keypt er söluhagnaðurinn skattskyldur með áorðnum verðbreytingum.

4. gr. fjallar um arð af hlutum og hlutabréfum í hlutafélögum. Ber að líta á greinina í samhengi við tillögur um lækkun skatthlutfalla í 6. gr. frv.

Lagt er til að í stað þess ákvæðis laganna sem heimilar að hlutafélög dragi útborgaðan arð frá skattskyldum tekjum sínum komi ákvæði þess efnis að lögaðilum, öðrum en sameignarfélögum, sjóðum, sjálfseignarstofnunum o.þ.h., dánarbúum og þrotabúum, verði heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum móttekinn arð sem þau fá úthlutað frá hlutafélögum og einkahlutafélögum. Greinin kveður einnig á um að hið sama skuli gilda um arð sem móttekinn er frá útlöndum að uppfylltu því skilyrði að þar hafi hagnaður verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi.

Ástæðan fyrir því að heimild til frádráttar á mótteknum arði er takmörkuð við framangreind félagsform en nær t.d. ekki til sameignarfélaga er sú að með innborgun arðs til þeirra er skattlagningu hans að fullu lokið þar sem úttekt úr sameignarfélagi er skattfrjáls en arðgreiðsla úr hlutafélagi til einstaklinga ber fjármagnstekjuskatt.

Úttekt arðs eða hagnaður hjá öðrum félögum, t.d. sameignarfélögum, er á hinn bóginn skattfrjáls. Með þessum reglum næst því sama skattlagning á arð óháð því hvort hann hefur gengið í gegn um fleiri eða færri lögaðila og óháð því hvers eðlis þeir eru.

Í 5. gr. er verið uppfylla af Íslands hálfu tilmæli OECD frá 11. apríl 1996, þar sem aðildarríki OECD voru hvött til að haga skattalöggjöf sinni þannig að komið sé í veg fyrir að líta megi á mútugreiðslur sem eðlilegan rekstrarkostnað.

Ýmis alþjóðasamtök og stofnanir, svo sem OECD, Evrópuráðið, Evrópubandalagið og Sameinuðu þjóðirnar, hafa á undanförnum árum hvatt ríki heims til að berjast gegn hvers konar spillingu, m.a. mútugreiðslum.

Þau hafa lagt á það áherslu að ríki heims víkki út gildandi reglur í hverju landi um sig þannig að þær nái einnig til sambærilegs verknaðar sem framin er í öðrum löndum. Liður í þessu er að koma í veg fyrir að innlend fyrirtæki fái frádrátt í skattalegu uppgjöri vegna mútugreiðslna til embættismanna í öðrum löndum.

Þess skal og getið í þessu sambandi að á vettvangi OECD var gerður alþjóðasamningur gegn mútugreiðslum til opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Samningur þessi var undirritaður af hálfu Íslands 17. desember 1997.

6. gr. varðar lækkun skatthlutfalla lögaðila. Í fyrsta lagi er lagt til að almennt skatthlutfall lögaðila annarra en sameignarfélaga, stofnana, sjóða o.þ.h. lækki úr 33% í 30%. Í öðru lagi er gerð tillaga um að skatthlutfall sameignarfélaga o.fl. verði 38% í stað 41% eins og verið hefur. Er það gert til samræmis við breytingar á skatthlutfalli einstaklinga. Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp sérstakt 10% skatthlutfall af mótteknum arði hjá þeim lögaðilum sem greiða eiga 38% skatt af öðrum tekjum sínum. Samkvæmt gildandi lögum skattleggjast arðstekjur með öðrum tekjum rekstrarins, þ.e. nú með 41% skatti.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur í tilefni kvörtunar sem henni barst gert athugasemdir við 78. gr. tekjuskattslaga að því er varðar skattalega meðferð innstæðna í lánastofnunum. Telur stofnunin að um sé að ræða mismunun milli innlendra og erlendra fjármálastofnana að því er varðar eignarskattsfrelsi bankainnstæðna. Stangist það á við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og ákvæði tilskipunar um frjálst streymi fjármagns innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í 7. gr. er lögð til breyting til að afnema umrædda mismunun.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að ræða mál þetta frekar að sinni en legg til að því verði að umræðunni lokinni vísað til hv. efh.- og viðskn.