Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:29:20 (4763)

1998-03-17 18:29:20# 122. lþ. 89.3 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög falleg ræða og góð hjá hæstv. forsrh. að öllu leyti nema einu. Hún átti bara alls ekki við þetta mál vegna þess að hér erum við að ræða um tekjuskatt af hagnaði fyrirtækjanna, af nettótekjuafgangi fyrirtækjanna þegar m.a. er búið að draga frá öll launaútgjöld þannig að það er að sjálfsögðu ekki svo að lækkun á tekjuskattsprósentunni af hagnaðnum sé nokkurt innlegg í það mál að hvetja fyrirtækin til að hækka laun. Það má segja að það væri frekar öfugt, að með því að hafa tekjuskattinn af hagnaðinum allríflegan, þá ættu fyrirtækin síður að sjá eftir því að hækka launin og hafa hærri launakostnað frádráttarbæran sem rekstrarkostnað hjá sér.

[18:30]

Þessi ræða átti hins vegar að sjálfsögðu við um aðstöðugjaldið. Þessi ræða á við um launatengd gjöld. Ef við værum að tala um að launatengdur kostnaður fyrirtækjanna hefði verið óhóflega hár þá er eðlilegt að skoða það. Um það ræða menn mest úti í Evrópu, t.d. í Þýskalandi. Þar hafa menn lent í því af ýmsum ástæðum, bæði sögulegum og vegna þess hvernig þeirra almannatryggingakerfi er uppbyggt og vegna fleiri þátta, að launatengdur kostnaður fyrirtækjanna er óhóflega hár, 18--20% brúttó í þýsku atvinnulífi. Því er ekki til að dreifa hér. Hann er mjög lágur. Menn lögðu niður aðstöðugjaldið án þess að taka upp nokkra aðra skatta í staðinn á fyrirtækin. Ég studdi reyndar þá aðgerð þó ég benti á að í leiðinni væri eðlilegt að athuga t.d. að koma þá við einhverjum umhverfisgjöldum eða öðru slíku ef slíkt væri á döfinni eða kæmi til með að koma. En hér er verið að tala um það hvað fyrirtækin eigi að leggja í sameiginlegan sjóð af nettóhagnaði sínum þegar hann einn er eftir og þegar allir frádráttarliðir hafa verið nýttir og allur rekstrarkostnaður greiddur, þar með talin launin. Ég fellst því ekki á að það eigi við sem rök hér að skynsamlegt hafi verið, sem það að mörgu leyti var, að hjálpa fyrirtækjum á erfiðleikaárum með því t.d. að létta af þeim óheppilegum flötum veltusköttum eins og aðstöðugjaldið var.