Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:51:22 (4768)

1998-03-17 18:51:22# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:51]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom mér á óvart hvað hv. þm. tók þessu framfarafrv. illa. Hann er hugsanlega á móti framförum. Þetta frv. er auðvitað mjög í þágu skattborgaranna. En því meir sem ég hlustaði á ræðu hans þótti mér skína í gegn að það væri skortur á öðru frv. sem varð til þess að hann fór að finna þessu frv. allt til foráttu og halda því fram að þetta frv. væri illa unnið sem engin rök benda til nema síður sé.

Ég vek athygli á því sem ég sagði þegar ég var að byrja að mæla fyrir frv. fyrr í dag, en þá sagði ég, með leyfi forseta: Auk þessa frv. er gert ráð fyrir að fram komi á þessu þingi skattafrv. sem fjalla um málsmeðferð í skattkerfinu og samskipti skattkerfisins og skattborgaranna. Þau mál hafa verið til sérstakrar athugunar í fjmrn. nú um nokkurt skeið.

Annars vegar er um að ræða frv. til laga um bindandi álit í skattamálum sem þegar hefur verið lagt fram og hins vegar frv. sem gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á reglum sem gilda um yfirskattanefnd og væntanlega verður lagt fram síðar á þessu þingi.

Það er einmitt þar sem fram koma breytingarnar sem varða málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd, og hv. þm. á ekki að láta þetta mál flækja fyrir sér stöðuna og leiða til þess að hann taki þessu framfarafrv., sem er ákaflega vel úr garði gert, jafnilla og hann gerði. Ég tók sérstaklega fram í ræðu minni þegar ég mælti fyrir frv. að nauðsynlegt væri að hafa tímafresti til að fara eftir og hér er stuðst við reglur stjórnsýslulaga hvað það varðar en auðvitað er líka svigrúm fyrir fjmrh. að setja nánari skilyrði varðandi þann frest í reglugerðarheimild.