Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 19:12:55 (4772)

1998-03-17 19:12:55# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[19:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. þm. nefndi varðandi sjálfskráandi fyrirkomulag einföldustu skattframtala, þá hafa menn lagt heilmikla vinnu í þetta. Fjármunir hafa verið lagðir til hliðar á undanförnum árum til þess að undirbúa skref í þessa áttina. Við sjáum reyndar að tæknivæðingin hefur aukist í því að vinnsla skattframtala er einfaldari nú en áður var. Möguleikinn á því að skanna framtölin veldur til að mynda því að allt gengur þetta hraðar fyrir sig. Innan fárra ára á það að geta gengið fram að allur þorri okkar skattgreiðenda þurfi ekkert að bogra yfir þessu. Þá verður þetta aðallega, eins og hv. þm. nefndi, færsla af einu plaggi yfir á annað sem skattstofan hefur yfir að ráða. Þannig er það með flesta skattgreiðendur að þeir færa inn upplýsingar af plöggum sem skatturinn hefur þegar fengið afrit af. Það telst kannski ekki mjög frjó starfsemi, hvorki af hálfu okkar skattgreiðenda eða skattkerfisins.

[19:15]

Hv. þm. nefndi að gengið hefði mikið fár og umræða um það fyrir sex til níu árum og nokkuð áfram þar um að nauðsynlegt væri að auka skatteftirlitið og flokkar lofuðu stórauknu skatteftirliti vegna meints skattsvikaástands á Íslandi. Þetta var mjög hávært í umræðunni og stjórnmálamenn þurftu að sjálfsögðu að vera framarlega þar í flokki. Ekki var látið nægja að hafa slíkt tal uppi heldur var gjarnan þegar efnahagsráðstafanir voru gerðar óhjákvæmilegt að loka slíkum efnahagsráðstöfunum nema lýsa því yfir að síðar mundu fást einn, tveir eða þrír milljarðar með auknu skatteftirliti. Það er hægt að draga fram mörg plögg sem þannig voru og ég verð því miður að viðurkenna að ég hef tekið þátt í slíku, beittur miklum þrýstingi vegna þess að það var ekki nokkur fótur fyrir því að slíkir peningar mundu endanlega nást. Allt byggði þetta á þeirri trú manna að hér væru skattsvik miklu algengari en annars staðar gerðist og fyrirferð þeirra miklu meiri og við miklu meiri þrjótar í þeim efnum en annars staðar gerðist. Þess vegna voru nefndirnar settar sem reiknuðu út neðanjarðarhagkerfið og tölurnar sem þar voru birtar byggðust á því að Ísland yrði væntanlega þá öfug skattaparadís miðað við það sem áður var nefnt í dag, að hver einasta króna kæmi til skila. Við yrðum þá eina landið í heiminum þar sem það gerðist með þeim hætti að kerfið væri svo fullkomið eða eftirlitið svo magnað að þannig mundi það nást. Þetta var heldur ekki frjó umræða og sennilega ekki vel undirbyggð heldur.

Það sýndi sig við samanburð að skattsvik voru ekkert meiri hér á landi en annars staðar gerðist og þegar ég segi annars staðar, þá meina ég í löndum þar sem skatteftirlitið er virkt. Við vitum af ýmsum suðrænum ríkjum, ég má kannski ekki segja vitum en það er almennt talið að í ýmsum suðrænum ríkjum séu skattsvik blómlegri, ef nota má það orð, en hér í hinum norrænu löndum þar sem allt er í fastara formi og fæstir hafa svigrúm og tækifæri til þó fegnir vildu til að svíkja undan skatti af þeim ástæðum sem við nefnum. Langflestir okkar eru launamenn þar sem allt er gefið upp til skatts óhjákvæmilega hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Við skulum vona að okkur flestum líki það betur. Ég held að þarna hafi menn farið offari.

En einmitt út af þessu andrúmslofti lágu skattyfirvöld, eins og hv. þm. reyndar benti á, undir heilmiklum þrýstingi um að standa sig nú betur í því að ná í alla þessa skattsvikara. Starfsmönnum skattstofa var fjölgað verulega í þeim tilgangi að ná betur í þá meintu skattsvikara sem stæðu fyrir þessu neðanjarðarhagkerfi. Reyndar þykjumst við nú merkja nokkurn árangur af því starfi öllu, enda væri annað skrýtið miðað við fjölgun skattheimtumanna og skatteftirlitsmanna og ýmsum skýrari ákvæðum.

Í þessu andrúmslofti hef ég verið þeirrar skoðunar og af því að hv. þm. nefndi það sérstaklega að við værum að tala um eitthvað sem væri okkar sök, þá hef ég gætt þess jafnan þegar ég hef rætt þessi mál að nefna mig með í málinu og orðað það svo að við þingmenn, stjórnmálamenn höfum gleymt okkur, gleymt að við værum ekki bara handlangarar skattheimtukerfisins og skattstofa, við hefðum aðra umbjóðendur. En við vorum svo föst í þessu fari að sanna okkur sem ætluðum að ná tökum á þessum meintu skattsvikurum sem alls staðar væru, að við gleymdum okkur. Skattstofurnar auðvitað eða þeir sem semja frumvörpin þaðan reyndu að búa sér til ákvæði og reglur sem þjónuðu þeim markmiðum að hafa sem ríkast svigrúm fyrir þessa aðila og gættu þá kannski ekki að sér um leið að huga að jafnræðisreglum og réttindum borgaranna.

Það er ekki nóg með það að stundum hafi menn gengið of langt fram í slíkum efnum varðandi lagasetningarákvæði heldur hefur framkvæmdin í hálfdómstólum eins og skattanefndum og síðan dómstólunum sjálfum ekki verið nægilega góð vegna þess að jafnræðis hefur ekki verið gætt. Frestum var haldið mjög stíft að einstaklingum og fyrirtækjum en ekki af hinum aðilanum.

Mér hefur komið á óvart hve mörg dæmi ég hef fengið frá skattborgurum eftir að ég fór að hreyfa þessum málum sérstaklega og í hverju þessir borgarar margir hverjir hafa lent og ekki þorað að ybba sig af ýmsum ástæðum. Getur það verið rétt ef skattyfirvöld halda reikningum fyrir mönnum vikum og mánuðum saman? Einstaklingarnir með smáfyrirtæki þurfi að verja sig, fresturinn með þeim hætti að endurskoðendurnir þurfi að vinna fyrir þá daga og nætur, taka þá úr öðrum verkum og dæmið endar kannski þannig að maður með lítið fyrirtæki hefur orðið að borga 1 millj. kr. --- 1 millj. króna --- til að verja sig og það er hægt að setja á hann 30 þús. kr. þegar allt er tínt til. Þá er komin 1 millj. kr. extra skattur sem ríkið tekur ekkert tillit til fyrst hægt er að klína á viðkomandi 30 þús. kr. Eru þetta eðlilegar reglur? Reglurnar segja væntanlega já. Fyrst viðkomandi var svo ólánssamur að hægt var að segja: Þarna eru 30 þús. kr. Væntanlega hefði kannski einhver einstaklingur komist upp með að kæra slík atvik og fara með þau til dómstóla með öllum þeim tíma og kostnaði sem í það fer en það reynir enginn maður. Fyrir utan slíkar tölur eru menn í litlum fyrirtækjum lamaðir meðan á slíkum aðgerðum stendur. Slíkir hlutir til að mynda eru ekki nokkur vinnubrögð og það þarf að hafa möguleika á því í slíkum dæmum að taka á skattheimtumönnum sem þannig haga sér.

Við þekkjum dæmi svipaðs eðlis annars staðar frá. Þar hefur komið fyrir að menn hafa rekið allt að þriðjungi starfsmanna í skattheimtukerfunum þegar komið hefur fram að slíkir menn hafa farið offari. Svona eru dæmin til. En auðvitað eru langflest dæmin alveg í gagnstæðar áttir, að á skattstofunum og í kerfunum vinnur gott, samviskusamt fólk sem er að fylgja eftir reglum sem við eða fyrirrennarar okkar hafa sett því ekki er skattkerfið frekar en Róm byggt á einum degi. Þarna þarf að gæta jafnræðis og við þurfum að gæta þess að gleyma okkur ekki. Ég held því fram að það hafi komið fyrir að við höfum gleymt okkur við setningu reglna að þessu leyti og síðan gleymt að tryggja það að í framkvæmdinni þar sem skatturinn á alls kostar við einstaklingana, við þær aðstæður eigi einstaklingurinn möguleika á að njóta réttar síns við málsmeðferðina, við framkomuna sem hann verður að búa við. Það verði jafnræði að ganga á milli þess.

Þess vegna nefndi ég það sérstaklega að kannaður yrði möguleiki þess að fundinn yrði farvegur fyrir aðila til hliðar við skattkerfið sem ætti einmitt að gæta sérstaklega að því að einstaklingurinn, fyrirtækið, ,,viðskiptavinur`` skattkerfisins fengi að njóta sín.

Ég gerði það viljandi að nota ekki orðið ,,umboðsmaður`` og hef aldrei notað það sjálfur vegna þess að ég hef verið svolítið hugsandi yfir öllum þessum umboðsmönnum sem menn hafa verið að nefna. En ég er ekki þar með að útiloka það ef aðrir sjá ekki aðra leið en einhverja slíka umboðsmannsleið. Ég er ekki að útiloka það að sú leið yrði þá farin en ég vil að aðrir kostir séu skoðaðir líka og það er það sem fjmrn. er að athuga og skoða um þessar mundir með jákvæðum hætti sem ég er mjög ánægður með.

Ég tel að öll þessi umræða og þau skref sem við höfum verið að stíga núna í þessum efnum sé, eins og hv. þm. sagði áðan, mjög í samræmi við það sem við þegar höfum gert varðandi stjórnsýslulög, upplýsingalög, frv. um eftirlitsiðnað og slík réttindamál borgaranna sem við megum ekki gleyma að eru hinir upprunalegu umbjóðendur okkar á þinginu.

Ég legg mikla áherslu á að þessi mál nái fram að ganga. Öll þau mál sem við erum að mæla fyrir í dag eru ívilnandi fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það er reyndar ekki svo oft sem við erum með slíka pakka í farvatninu nema þá þeir hafi verið tengdir einhverjum tilhliðrunum til að mynda í sambandi við gerð kjarasamninga eða þess háttar atriða og þá er þingið stundum við þær aðstæður ekki jafnfrjálst og það ætti að vera við að færa frumvörpin í þann búning sem það helst kysi. Ég tel því að við séum hér varðandi það frv. sem sérstaklega er til umræðu á réttu róli en mér fannst eðlilegt að hv. þm. notaði tækifærið og tæki þetta mál aðeins til umræðu til hliðar við frv. sjálft. Mér fannst það viðeigandi og passa vel við. Þess vegna gerði ég þetta að umtalsefni, að vísu dálítið óskipulega kannski og óundirbúið en af bestu getu.