Eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 21:04:40 (4781)

1998-03-17 21:04:40# 122. lþ. 89.7 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv., 561. mál: #A sérákvæði laga um fjármálaeftirlit# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[21:04]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tímann, þannig að fleiri komist að í umræðunni á eftir, til að svara nokkrum þeirra spurninga sem fram komu í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar.

Í fyrsta lagi vil ég almennt taka undir það og þakka hv. þm. fyrir að mér fannst hlýir straumar liggja frá þingmanninum til þess ágæta máls sem hér liggur fyrir. Ég tek undir að rétt sé að skoða einstakar athugasemdir hv. þm. í nefnd. Auðvitað má bæta margt eins og málið liggur fyrir núna.

En ég vil svara nokkrum spurningum hv. þm. og þá í fyrsta lagi varðandi tengslin við Seðlabankann. Af því að hv. þm. spurði um afstöðu Steingríms Hermannssonar til málsins get ég í sjálfu sér svarað því um leið. Það sem seðlabankastjóri hafði áhyggjur af, en afstaða Seðlabankans til málsins var skýr, var fyrst og fremst að þarna væri höggvið á öll tengsl milli Seðlabankans og bankaeftirlitsins. Það mundi leiða til þess að Seðlabankinn þyrfti að koma upp eftirliti með innlánsstofnunum hjá sér. Auðvitað vildum við koma í veg fyrir að tvöföldu eftirliti yrði komið upp. Þegar við hins vegar fórum að vinna málið, eftir að nefndin hafði skilað af sér, í tiltölulega góðri sátt við Seðlabankann, varð niðurstaðan sú, eftir að við höfðum tekið tillit til mjög margra ábendinga sem fram komu hjá Seðlabankanum að öðru leyti en því að bankaeftirlitið yrði rekið áfram sem sjálfstæð eining innan Seðlabankans, að Seðlabankinn gerir ekki athugasemdir við málið eins og það liggur fyrir. Enda er það svo á mörgum Norðurlandanna að þar eru bankaeftirlit og fjármálaeftirlit sem þessi rekin í nánum tengslum við seðlabanka. Við höfum þess vegna reynslu af því annars staðar frá. Umfram allt þurfum við að koma í veg fyrir tvöfalt eftirlit og því eru tengslin styrkt milli Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins að Seðlabankinn þurfi ekki að koma upp eigin eftirliti með fjármálastofnunum innan Seðlabankans. Það er megintilgangurinn.

Örfá orð til viðbótar, með leyfi forseta. Hv. þm. spurði um starfsmannafjölda. Mér sýnist að starfsmannafjöldinn hjá Vátryggingaeftirlitinu séu 10--12 manns, hjá bankaeftirlitinu 16--18. Í 20. gr. frv. er gert ráð fyrir því að starfsmenn þessara fyrirtækja hafi rétt til starfa hjá hinu nýja fjármálaeftirliti. Sú regla gildir ekki um forstöðumenn þeirra eftirlitsaðila sem nú starfa. Þeim er ekki tryggt starf ef af þeirri breytingu verður sem þarna er um að ræða.

Hugmyndin er ekki ný eins og fram kom hjá hv. þm. Henni hefur áður verið varpað fram. Það sem hins vegar er nýtt í þessu er að nú sést þetta mál í heillegum búningi á Alþingi og ríkisstjórnin ætlar sér að fá það samþykkt. Ég vonast til að um það náist tiltölulega góð sátt við nefndina.