Vextir, dráttarvextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 22:33:49 (4798)

1998-03-17 22:33:49# 122. lþ. 89.13 fundur 562. mál: #A vextir, dráttarvextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[22:33]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég játa það að hvað varðar þá útfærslu sem um er að ræða á dráttarvöxtum, þá hef ég út af fyrir sig ekkert um hana sagt og hef ekkert um hana að segja á þessu stigi málsins og vísa því til vinnu nefndarinnar.

Varðandi málið að öðru leyti og verðtryggingu fjárskuldbindinga þá ætla ég að segja þetta. Það er búið að afnema sjálfvirkni meira og minna í t.d. breytingum á launum. Það er búið að afnema sjálfvirkni meira og minna t.d. í breytingum á ýmiss konar kvótum. Það hefur jafnvel verið rætt um að afnema sjálfvirkni að því er varðar elli- og örorkulífeyri. Og almennt er talað um það sem meginefnahagsviðmið í þjóðfélaginu að reynt verði að afnema sjálfvirkni. Ég er út af fyrir sig sammála því, ég held að sjálfvirkni eigi ekki að vera mjög víða. Ég held að menn eigi að taka sínar ákvarðanir opnum augum.

Á sama tíma hins vegar þá vefur fjármagnið sjálfvirkt upp á sig. Það er jafnvel talið af þeim sem þekkja vel til að fjárskuldbindingar hér á landi séu ofverðtryggðar. Í raun sé lánskjaravísitalan þannig samsett hjá okkur að hún mæli fjármagnið meira upp en nokkur ástæða væri til. Ég held þess vegna að málið snúist kannski ekki um það að einhverjir hér, eins og ég og hv. þm. Ágúst Einarsson, án þess að ég tali að neinu leyti fyrir hann, vilji rasa um ráð fram. Ég vil það ekki, ég vil ekki rasa um ráð fram.

Það var mikil samviskuspurning fyrir mig fyrir allmörgum árum þegar Ólafslögin voru sett að setja verðtryggingarákvæðin inn í Ólafslögin. En ég taldi það óhjákvæmilegt vegna þess hvernig staðan var. Og alveg á sama hátt þá vil ég ekki núna að menn rasi um ráð fram, en ég vil að menn taki um það vísvitandi ákvarðanir að feta sig alveg skýrt út úr þessu, því að þetta eru leifar liðins tíma sem við eigum alls ekki að þurfa að endurvekja aftur. Mér finnst að í þessu frv., ef það verður að lögum, eigi að taka slíkar ákvarðanir opnum augum með svipuðum hætti og hv. 11. þm. Reykn. benti á áðan eða á annan hátt sem hv. efh.- og viðskn. nær samkomulagi um.