Vextir, dráttarvextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 22:38:19 (4800)

1998-03-17 22:38:19# 122. lþ. 89.13 fundur 562. mál: #A vextir, dráttarvextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[22:38]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Aðalgallinn við frv. að þessu leytinu til er sá að gengið er út frá verðtryggingu sem meginaðferð við ávöxtun sparifjár. Það er gengið út frá verðtryggingu sem einni aðalaðferðinni við ávöxtun sparifjár í landinu. Í 15. gr. frv. stendur líka, með leyfi forseta:

,,Seðlabankinn skal að fengnu samþykki viðskiptaráðherra ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána.`` Og síðar segir: ,,Seðlabankanum er heimilt að fengnu samþykki ráðherra að ákveða að óheimilt sé að verðtryggja innlánsfé og hvers konar lánsfé`` o.s.frv.

Ég tel að þessi ákvæði eins og þau eru sett upp séu í rauninni algerlega fráleit, þó að það sé ekki nema vegna þess að það verður að biðja um samþykki ráðherra fyrir því að fikra sig út úr þessu kerfi sem hér er um að ræða. Mér fyndist að það algjört lágmark við lagfæringu á þessum greinum og yfirferð yfir frv. í hv. efh.- og viðskn. að um það væri að ræða að Seðlabankinn hefði þessa heimild og að honum væru lagðar skyldur á herðar varðandi það að fikra sig og þjóðina út úr þessum verðtryggingarfjötrum á eins stuttum tíma og mögulegt er án þess að rasa um ráð fram.