Vextir, dráttarvextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 22:40:28 (4802)

1998-03-17 22:40:28# 122. lþ. 89.13 fundur 562. mál: #A vextir, dráttarvextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[22:40]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta er að mörgu leyti athyglisverð umræða. Í fyrsta lagi vil ég fullvissa hæstv. viðskrh. um að ég og hv. þm. Svavar Gestsson erum ekki að rasa um ráð fram og þetta er hugsað af okkar hálfu. Hér hefur enginn verið að tala um það, hvorki ég né hv. þm. Svavar Gestsson, að það hefði átt að stíga þetta skref árið 1990. Hvorugur okkar hefur sagt það, þannig að ráðherra veit að slíkt innlegg í umræðuna er ekki mjög málefnalegt en látum það vera. Umræðan hefur verið málefnaleg og ég ætla ekki að stuðla að því að hún fari í annan farveg.

Það sem hér er um að ræða er það að við höfum eðli málsins samkvæmt verið að fikra okkur smátt og smátt út úr verðtryggingu á mjög mörgum sviðum. Hv. þm. Svavar Gestsson vakti sérstaka athygli á þeirri stefnu núv. ríkisstjórnar að afnema verðtryggingu og sjálfvirkni hvað varðar ellilífeyrisþega. Okkur stjórnarandstæðingum hefur reyndar fundist að það væri ekki brýnasta málið í afnámi verðtryggingar. Látum það nú vera.

En það sem við erum að segja er að forsendur eru breyttar. Það eru aðrar aðstæður núna en voru fyrir nokkrum árum. Og það sem hefur verið lagt upp með af hálfu Seðlabankans er það, og hæstv. ráðherra vék að, að frá og með 1. janúar árið 2000 verður bannað að verðtryggja innlán. Frá og með 1. janúar árið 2000 verður bannað að verðtryggja útlán sem eru til skemmri tíma en sjö ára. Það verður sem sagt heimilt eftir 2000 að verðtryggja öll langtímaútlán einstaklinga, þ.e. yfir sjö árum, þar á meðal öll húsnæðislán og mörg önnur lán sem eru í gangi í samfélaginu. En á sama tíma verður bannað að verðtryggja innlán.

Þarna er vissulega verið að fikra sig út úr verðtryggingunni. Það sem við hins vegar erum að segja: Hér á að stíga --- kannski ekki fastar til jarðar eða rasa um ráð fram eða eitthvað slíkt, það er enginn að tala um að gera neitt þess háttar --- heldur eigum við að fara yfir hvort aðstæður séu þannig að skynsamlegt sé að leggja bann við verðtryggingu útlána nákvæmlega eins og Seðlabankinn telur skynsamlegt að leggja bann við verðtryggingu innlána árið 2000.

Ég segi já við því. Það er einfaldlega skynsamlegt að gera það vegna þess að þetta verðtryggingarfyrirkomulag hjá okkur er farið að valda okkur tjóni. Ég sagði áðan í ræðu minni að þetta héldi glóðum verðbólgubálsins lifandi. Verðtryggingarfyrirkomulagið er farið að valda okkur tjóni. Ég vitnaði sérstaklega í ákvæði þessa frv. þar sem er verið raunverulega að stíga skrefin í þá átt sem ég er að tala um þegar hámark á dráttarvöxtum er sett 10 af hundraði. Það er sem sagt verið að ganga út frá stöðugleika í dráttarvaxtaumhverfinu. Skynsamlegt og eðlilegt hefði verið er að bregðast við breyttum aðstæðum og það á vissulega að gera á sviði langtímalána eins og við leggjum til.

Mig langar einnig að vitna í svar hæstv. ráðherra, sem virtist vera búinn að gleyma því, varðandi verðtryggingu erlendis en hann svaraði fyrirspurn á þingi árið 1996. Það var fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar kom m.a. fram að hlutfall verðtryggingar á ríkisskuldabréfum hér er um 86%, í Bretlandi um 18%, í Svíþjóð rúm 7%, í Ástralíu um 4% og lægra annars staðar. Það er því alveg augljóst að verðtrygging er mjög lítil erlendis þótt það sé vitaskuld rétt að hún hafi verið að aukast erlendis á tilteknum langtímalánum. En við erum svo langt út úr korti hvað varðar verðtryggingu á fjárskuldbindingum að samanburður við útlönd á ekki við. Hægt er að benda á lönd þar sem þetta er beinlínis bannað, enda eigum við, herra forseti, að tala um þetta frá okkar forsendum, tala um þetta út frá þeirri staðreynd sem ég og hv. þm. Svavar Gestsson tókum báðir þátt í 1978 og 1979 að lögfesta, þ.e. verðtryggingarkafla Ólafslaga. Við erum báðir sannfærðir um að það var rétt skref að gera það á þeim tíma. Það var rétt skref í þeirri óðaverðbólgu. Það er nákvæmlega jafnrétt skref að stíga núna til baka. Vitaskuld að vel yfirlögðu ráði og ég held að ég hafi hingað til haft orð á mér fyrir að vera varkár hvað varðar yfirlýsingar í sambandi við vexti. Ég hef hugsað mikið um þetta mál og mín niðurstaða er þessi: Það er tímabært að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Ég bendi á að Alþingi samþykkti þáltill. sl. vor og verið er að vinna að því að skoða verðbólgureikningsskilin og þá aðferðafræði hvort menn eiga að fikra sig út úr þeim efnum eða ekki. Við erum að fara út úr þessum arfi fortíðarinnar og við eigum að gera það markvisst eins og leggjum til.

[22:45]

Ég vil leiðrétta það hver skuldastaða heimilanna er. Árið 1994 var hún 300 millj., 1995 322 millj., 1996 341 millj. Hún hefur sem sagt aukist. Ég hef ekki nýrri tölur. Þetta hefur allt komið fram í skýrslum og svörum frá hæstv. viðskrh. og hæstv. ríkisstjórn. Við skulum hins vegar ekki vera að deila um það mál. Ég hef ekki nýjustu tölur um skuldastöðu heimilanna enda er það kannski ekki meginatriði í þessum efnum. Aðalatriðið er að ef við búum við óskynsamlegt kerfi á langtímalánum eintaklinga þá eigum við að fara út úr því ef við getum gert það og unnið efnhagslífinu gagn.

Þetta er allt spurning um tímasetningu. Ég tel að aðstæður í dag séu þess eðlis að þetta muni ekki kalla á röskun. Þetta muni þvert á móti styrkja efnahagsstefnuna sem við höfum fylgt frá 1990 sem er ekki efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar, þ.e. sú efnahagsstefna að tryggja lága verðbólgu og freista þess að hafa lága verðbólgu og byggja upp hagvöxt og betri lífskjör smátt og smátt. Flestir flokkar á hinu háa Alþingi hafa komið að þessari stefnu á einn eða annan hátt, sumir innan þings, sumir utan þings eða með flokksmönnum sínum annars staðar í þjóðlífinu. Þetta hefur verið sú stefna sem hefur reynst okkur farsæl. Þó að við séum vitaskuld ekki sammála um alla þætti hennar, þá hefur það sem gerðist upp úr 1990, fráhvarfið frá verðbólgutímanum, reynst okkur vel. Það er nákvæmlega jafnskynsamlegt að stíga þessi skref sem núna er verið að fara mjög varlega en afdráttarlaust í formi stefnumótunar Alþingis nákvæmlega eins og þegar við mótuðum stefnum á Alþingi þegar við gengum frá Ólafslögum á sínum tíma. Ég vil minna á það hver sá Ólafur var sem lögin eru kennd við. Það var Ólafur heitinn Jóhannesson, þáv. forsrh. og formaður Framsfl. Þá var það hann sem hafði forustu um þá löggjöf sem markaði tímamót í efnahagsmálum hér á landi og ekki bara út af þessum verðtryggingarkafla heldur út af mörgum öðrum þáttum.

Ég fagna því í sjálfu sér að hæstv. viðskrh. útilokar ekki neitt. Hann sagðist ekki útiloka að þetta mundi leiða til þess að verðtrygging yrði bönnuð í framtíðinni. Hann var mjög varkár, of varkár, og fór að blanda inn í þetta öðrum óskyldum hlutum eins og afstöðu minni til Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Hæstv. ráðherra er alveg fullkunnugt um að við lögðum til að ekki yrði farin leið Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, heldur yrðu sjóðirnir teknir og færðir inn í viðskiptabankana og gerðir sterkari einingar, sem yrðu þá hæfari til þess að dreifa eignaraðild þannig að við sköpuðum hér tryggara og öruggara fjármagnsumhverfi. Ég sé nú ekki beint ástæðu til að fara inn í þá umræðu hér. Ég vil reyna að halda mig við þetta efni. Mér finnst að við hv. þm. Svavar Gestsson og ráðherra höfum að mestu leyti, reynt að vanda okkur í þessari umræðu og rætt efnislega um þessa spurningu: Er tímabært að leggja bann við verðtryggingu útlána eins og ég kynnti hér í upphafi?

Okkar niðurstaða er sú að aðstæður séu þær að skynsamlegt sé að gera það. Þetta er lagt til að vel yfirveguðu ráði. Það er ekkert óðagot í þessu. Hægt er að færa mörg rök fyrir því að þetta sé skynsamlegur lokapunktur í vörninni og sókninni gegn verðbólgunni, raunverulega í því stríði sem hefur staðið um 20 ára skeið. Þess vegna er mikilvægt að skapast geti jafnvel um þetta samstaða. Ég held að það væri mjög gott ef svo yrði. Ef ekki, þá er svo sem ekkert að því að það skilji á milli í afstöðu manna hvað þetta atriði varðar. Ég hef kynnt málsmeðferð okkar í þessu og hv. þm. Svavar Gestsson hefur tekið undir það. Þingflokkar okkar munu fylgja þessu máli eftir, bæði innan efh.- og viðskn. og í þingsölum. En ég legg mikla áherslu á það, herra forseti, að lokum að við teljum að þetta sé raunhæf aðgerð, tímabær aðgerð, og að hún muni gagnast efnahagslífi og almenningi öllum ef hún nær fram að ganga.