Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 23:20:48 (4809)

1998-03-17 23:20:48# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[23:20]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég átti við með því að ég gerði ekki athugasemd við að málið færi til hv. heilbr.- og trn. er þetta: Málið fer frá þinginu til iðnn. af því að iðnrh. flytur málið og það snýr að starfsréttindum tannsmiða. Ég viðurkenni að það liggur mjög nærri heilbrigðismálum, það er ekki nokkur vafi og þess vegna geri ég engar athugasemdir en ég tel að þingið, þ.e. þingnefndin, eigi að taka þá ákvörðun hvort við viljum láta heilbr.- og trn. skoða málið. Ef svo er þá tel ég það vera til að styrkja málið, ég tala ekki um ef einróma niðurstaða kemur um að þetta sé allt saman skynsamlegt og ég veit að hv. þm. situr í þeirri nefnd. Eftir umræðuna hér er ég ekki alveg viss um að það verði einróma niðurstaða en við sjáum til hvernig það fer.

Í Noregi og Svíþjóð er annað fyrirkomulag en í Danmörku. Það er alveg rétt. Ég hef ekki alveg þá þekkingu til að bera að ég treysti mér til að lýsa því nákvæmlega hvernig þessu er fyrir komið þar.

Varðandi sérfræðiþekkinguna er alveg skýrt að hafi viðkomandi tannsmiður grun um að eitthvað geti verið að í munnholi viðkomandi manns þá er það ótvírætt að hann á að vísa þeim sjúklingi eða þeim skjólstæðingi sínum til heimilislæknis eða sérfræðings og mér þykir rétt að kveða á um að sérfræðingur í þessu tilfelli er alveg ótvírætt tannlæknir. Það er enginn vafi í mínum huga og ég lýsti því áðan. En við getum ekki leyft okkur að gera ríkari kröfur til þessarar stéttar hér á landi en Danir gera til sinnar stéttar, þ.e. svo framarlega sem námið er sambærilegt og þekkingin og reynslan sem þar er til staðar og ég vona að við séum sammála um það. Það sem mér fannst vera svo mikilvægt í þessum ágætu viðræðum sem ég átti m.a. við varaformann og formann Tannlæknafélags Íslands var að þeir sögðu: Við getum ekki lagst gegn því að ákveðinni stétt séu fengin þau starfsréttindi samkvæmt lögum sem löggjafinn vill að hún fái. Það sem við gerum athugasemdir við er það ef það á að gera minni kröfur um nám til þessarar stéttar en gerðar eru í löndunum í kringum okkur og minni kröfur sem gerðar voru á tilteknum sviðum tannlækna til þeirra manna sem eru núna tannlæknar og eru að smíða góma og tannparta.