Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 23:23:19 (4810)

1998-03-17 23:23:19# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[23:23]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það að við getum ekki gert minni kröfur til náms en gert er í Danmörku vil ég spyrja hæstv. ráðherra um önnur lönd: Hvað ef t.d. Norðmenn gera ríkari kröfur til þessara mála en gert er í Danmörku varðandi læknisfræðilega þáttinn og menntunarþáttinn? Eigum við einungis að miða okkur við Danmörku? Er það hið útvalda land í þessu sambandi?

Svo langar mig líka að spyrja aftur hvort hæstv. iðnrh. er ósammála ráðum fyrrv. heilbrrh. þegar lögin voru sett en þar segir, með leyfi forseta:

,,Það hefur enginn annar leyfi til þess að vinna sjálfstætt við sjúkling enda er læknisfræðileg þekking á líffærafræði tyggingarfæra undirstaða þess að vel takist til við ísetningu gervitanna.``

Þetta var undirstaða laganna þegar þau voru sett á sínum tíma en við erum að fara algerlega inn á aðra braut og ég spyr: Er ráðherrann ósammála þessari fyrri hugmyndafræði?