Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 23:24:36 (4811)

1998-03-17 23:24:36# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[23:24]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er yfirleitt unun að hlýða á mál hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur einkum þegar er svona síðla liðið á kvöld en ég verð að segja að ræðan sem hv. þm. flutti áðan var langversta ræða sem ég hef nokkru sinni heyrt hana flytja. Ég var sem sagt ósammála öllu sem hv. varaformaður heilbr.- og trn. sagði í ræðu sinni nema í upphafi máls hennar þegar hún sagði að það væri heldur ókristilegt að halda þingmönnum svona seint við að ræða mál. Ég tek undir það en vísa því náttúrlega beinustu leið til ríkisstjórnarinnar sem heldur okkur hérna --- ég segi ekki í gíslingu en heldur okkur hérna því vísast vildi stjórnarandstaðan fyrir löngu vera komin heim í rúm sitt eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Ég get hins vegar vel eytt kvöldi og þess vegna næturparti líka til þess að ræða þetta mál. Ég fylgi þessu máli út í ystu æsar. Ég tel að hæstv. iðnrh. eigi hrós skilið fyrir að hafa tekist að finna leið til þess að koma þessu máli fyrir. Satt að segja tæki ég hatt mitt ofan ef ég hefði einhvern vegna þess að ég vissi ekki betur en þetta væri heilbrigðismál og þetta væri á forræði hæstv. heilbrrh. og ég man ekki betur en ég hafi einmitt einhvern tíma varpað fram spurningu í þinginu til hæstv. heilbrrh. um þetta mál. En ég segi það að mér finnst sem hæstv. iðnrh. sé í sínum fulla rétti til þess að leggja þetta mál fram.

Ég er algerlega fylgjandi því að þetta verði samþykkt og ég er líka fylgjandi því að málinu verði vísað frá iðnn. til heilbr.- og trn. þar sem ég sem formaður nefndarinnar mun gera mitt til þess að það verði einróma niðurstaða í málinu. Ég held að þegar málið er skoðað sjái allir menn að þetta er réttlætismál og auðvitað ætti fyrir lifandis löngu að vera búið að samþykkja þetta. Kannski ætti hæstv. iðnrh. að bregða sér aftur í gervi heilbrrh. og leggja líka fram frv. um starfsréttindi þeirra sem vinna við gleraugu og annað slíkt. Ég hygg að það sé líka tímabært að gera það.

Það sem verið er að gera er ekkert annað en að verið er að brjóta á bak aftur rangláta einokun tannlækna á þessu tiltekna starfi. Engin rök sem hafa komið fram mæla gegn því að tannsmiðir fái þennan rétt sem hér er verið að leggja til. Hvað er það sem verið er að leggja til hérna? Það er verið að leggja til að Alþingi renni lagalegum stoðum undir það að tannsmiðir geti smíðað og þeir geti gert við tanngóma og tannparta og unnið líka við töku móta og þar með farið upp í munnhol sjúklings án milligöngu tannlækna. Ég held að engin rök sem hnígi að því að það sé ekki sanngjarnt að svo sé. Það er bent á það af hæstv. iðnrh. að í Danmörku er þetta við lýði og ef hv. þm. og varaformaður heilbr.- og trn., Siv Friðleifsdóttir, hefur einhverjar efasemdir um að þetta fyrirkomulag gangi þá spyr ég: Hefur hv. þm. velt fyrir sér reynslu Dana í þessum efnum? Staðreyndin er nefnilega sú að hún er giska góð. Það er ekki hægt að benda á neitt þar sem rennir stoðum undir að þetta frv. ætti ekki að samþykkja. Ég held að nokkrir heilbrigðisráðherrar hafi í gegnum tímann búið til einhvers konar frv. sem ýmist hafa verið lögð fram og svæfð svefninum langa eða þeir hafa ekki haft dug í sér til að leggja málið fram. Ég segi einfaldlega: Hver var fyrirvarinn sem varaformaður heilbr.- og trn. setti við málið? Hún fór með langan og ágætan og fróðlegan texta um mál sem fyrst var rekið fyrir héraðsdómi og síðan aftur fyrir Hæstarétti og leiddi til þeirrar niðurstöðu að það var alveg ljóst að það þyrfti að breyta lögum til þess að skjóta lagastoð undir möguleika tannsmiða til þess að geta starfað sjálfstætt og án milligöngu tannlækna. Ég segi fyrir mig að neytendur hljóta að fagna þessu. Það er alveg ljóst að þeir munu njóta þessa í ríkum mæli. Verðlagning á þessum verkum hefur verið gríðarlega há. Hún mun væntanlega lækka. Þetta mun þess vegna þýða minni kostnað fyrir neytendur og væntanlega í sumum tilvikum einnig fyrir ríkið. Ég lýsi eindregnum stuðningi mínum við málið og ég man ekki betur en stjórnarandstaðan í heilbr.- og trn. hafi öll á sínum tíma lýst skoðunum sem ganga mjög í sömu átt og frv.

Ég held að hæstv. iðnrh. hafi lagt fram gott mál. Þetta er mál sem ég og flokkur minn höfum stutt í gegnum árin. Þetta er tímabært mál, þetta er sanngirnismál og þetta er neytendamál. Ég tel að þó að skammt lifi þings, þá muni a.m.k. heilbr.- og trn. ekki láta sitt eftir liggja til að þetta nái fram að ganga á þessu þingi.