Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 23:31:11 (4813)

1998-03-17 23:31:11# 122. lþ. 89.14 fundur 458. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[23:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál kom a.m.k. ekki fyrir mín augu fyrr en undir lok síðasta kjörtímabils. Ég vissi ekki af því að þessi meinbugur væri á starfi tannsmiða. Ég man ekki betur en að óþarft hafi verið talið að leggja fram frv. vegna þess að komin væri ákveðin sátt í þetta mál. Hún var síðan staðfest með þeim dómi sem féll fyrir héraðsdómi þannig að menn töldu að þarna hefðu tannsmiðir unnið sigur og ekki þyrfti ekki að breyta þessu eins og hér er verið að leggja til.

Raunin varð síðan önnur, eins og kom fram í dómi Hæstaréttar. Ég ætla ekkert að skorast undan því. Ég var heldur ekki að undanskilja Alþfl. áðan. Ég sagði að fyrri heilbrigðisráðherrar hefðu ýmist samið þessi frumvörp og lagt fyrir þingið en málið dáið sínum dauða þar eða þeir ekki haft kjark til þess að leggja það fyrir. Ég veit ekki hvernig þetta var. Ég minnist þess þó að við fögnuðum því hér, meira að segja í umræðu einhvern tíma, að málið væri komið í höfn. Það reyndist ekki vera rétt.

Hv. þm. segir að hún hafi fyrirvara við málið og fyrirvarinn helgist af því að hún sé ekki viss um að við séum að stíga framfaraspor. Bíðið nú við, herra forseti, hver er þessi rökfærsla? Hvað er það sem hv. þm. sér athugavert við málið? Hún hefur ekki gert grein fyrir því. Það má vel vera að hv. þm. hafi miklu betri skilning og þekkingu á tannlækningum heldur en ég. En ég veit að þetta mál hefur fengið þessa meðhöndlun í Danmörku öllum til farsældar. Við könnuðum þetta á sínum tíma og fengum þær upplýsingar að engir verulegir annmarkar væru á framkvæmd þessa þar. Hví skyldu þeir vera hér?

Auðvitað er hér um ekkert annað að ræða en að tannlæknar eru að ríghalda í einokun sína á þessu. Þannig er það því miður og það er staðreyndin í þessu máli. Mér finnst að fyrst að varaformaður heilbr.- og trn. gerir fyrirvara, þá verði hún að skýra hann betur en með því að segja að hún sé ekki viss um að þetta sé framfaraspor. Hvað er það sem veldur óvissu hennar?