Stefna ríkisstjórnarinnar í fiskeldismálum

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 13:34:25 (4828)

1998-03-18 13:34:25# 122. lþ. 90.1 fundur 467. mál: #A stefna ríkisstjórnarinnar í fiskeldismálum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. kynnti fyrirspurn hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar sem hann bar fram á þingi á þskj. 800 og hljóðar svo:

Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í fiskeldismálum:

a. eldi vatnafiska,

b. eldi fiska í köldum sjó?

Forsrn. óskaði eftir greinargerð frá landbrn. um málið og byggir á henni. Á árunum 1985--1991 er varið verulegum fjármunum til uppbyggingar í fiskeldi. Opinberir stjóðir og bankastofnanir, einkum Byggðastofnun, Framkvæmdastofnun, ábyrgðadeild fiskeldislána með ríkisábyrgðasjóð, Landsbanki og aðrir bankar lögðu fram verulega fjármuni til uppbyggingar og rekstrar fiskeldisfyrirtækja. Mest af því fé sem sjóðir og bankastofnanir lánuðu fiskeldisfyrirtækjum á þessum árum tapaðist eða um 6--8 þús. millj. kr. Í byrjun árs 1991 höfðu opinberir sjóðir og stofnanir gefist upp á fyrirgreiðslum til fiskeldisfyrirtækja og gjaldþrot blasti við mörgum fyrirtækjanna.

Á fundi sínum 5. júní 1991 samþykkti ríkisstjórnin sérstakar aðgerðir til stuðnings fiskeldi. Alls skyldi lána 300 millj. kr. til fiskeldisfyrirtækja og voru á árunum 1991--1992 veitt sérstök rekstrarlán til 20 fiskeldisfyrirtækja. Nefnd þáv. landbrh. sá um úthlutun fjárins. Mörg þessara fyrirtækja eru enn í rekstri og hafa staðið í skilum með rekstrarlánin. Fullyrða má að ef ekki hefði komið til þessara lánveitinga hefðu flest ef ekki öll fiskeldisfyrirtæki hér á landi orðið gjaldþrota.

Á síðasta ári voru lánaðar 30 millj. kr. til framleiðniaukandi aðgerða í fiskeldi. Áformað er að lána 40 millj. kr. á þessu ári til svipaðra verkefna. Umrætt fé er það fé sem hefur endurgreiðst af sérstökum rekstrarlánum sem veitt voru á árunum 1991 og 1992. Ekki er fyrirhugað að veita nýtt fjármagn til fiskeldisfyrirtækja en miða lánveitingar við endurgreiðslur á áður veittum rekstrarlánum.

Til að efla þróunarstarf í fiskeldi hafa fiskeldisfyrirtæki ásamt Rannsóknarráði Íslands gert markáætlun í fiskeldi. Áætlunin fjallar um framleiðslumarkmið og rannsóknir tengdar þeim. Fullyrða má að áætlun þessi og rannsóknir sem tengjast henni hafi leitt til mikilla framfara í fiskeldi eins og framleiðslutölur bera með sér. Raforkufyrirtæki, landbrn. og Rannsóknarráð Íslands hafa stutt þessa áætlun sem fjallar um þróunarstarf í fiskeldi.

Framleiðsla í fiskeldi hefur aukist úr tæpum 2 þús. tonnum árið 1989 í 5 þús. tonn á árinu 1997. Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða voru á síðasta ári um einn milljarður kr. Þetta er rétt að nefna vegna þeirrar fyrirgreiðslu sem ríkisstjórnin ákvað á fundinum 5. júní 1991 og áður var til vitnað að það var sérstaklega hugsað í þeim tilgangi að sú þekking sem í landinu var færi ekki öll forgörðum en ekki í þeirri von að menn gætu haldið fiskeldisfyrirtækjum gangandi með þeim brag sem hefði verið reynt á árunum þar á undan. Telja verður að sú tilraun sem þar var ákveðin hafi heppnast.