Vinnuklúbburinn

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 13:38:58 (4830)

1998-03-18 13:38:58# 122. lþ. 90.2 fundur 511. mál: #A vinnuklúbburinn# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Vinnuklúbburinn er eitt þeirra verkefna sem ríkisstjórnin hefur staðið að til að berjast við langtímaatvinnuleysi. Önnur verkefni eru Hitt húsið, sem er einkum ætlað ungu fólki, og Gangskör, verkefni sem er ætlað konum á aldrinum 40--60 ára.

Langtímaatvinnuleysi er mikið böl fyrir það fólk sem í því lendir og því mikilvægt að leitað sé sem flestra leiða til að vinna bug á því. Í Vinnuklúbbnum er fólk í fullri vinnu við að leita sér að atvinnu. Hugmyndafræðin er orðin 30 ára gömul og kemur upphaflega frá Kanada og hefur verið þróuð áfram og notuð í Bandaríkjunum og Evrópu og kemur hingað frá Noregi. Um er að ræða sjö vikna prógramm þar sem byrjað er á tveggja vikna námskeiði. Fólk verður að taka þátt í verkefninu af eigin hvötum og eigið frumkvæði er frumforsenda þess að árangur náist.

Markmiðið er aðeins eitt og það er að fá starf. Í Vinnuklúbbnum fær atvinnuleitandi leiðbeiningar um hvernig hann eigi að bera sig að við atvinnuleit. Uppsetning atvinnuumsókna, hvernig menn kynna sig, hvernig menn bera sig í viðtölum og framkoma. Mönnum er jafnvel kennd undirstöðuatriði í mannasiðum og hreinlæti. Fólki er kennt að sýna sinn rétta persónuleika því að kannanir sýna að flest fyrirtæki setja persónuleika í fyrsta sæti, t.d. fram yfir starfsreynslu þegar farið er yfir kosti og galla umsækjenda um störf.

Einnig er mjög mikilvægur þáttur að kenna fólki hvar eigi að leita að atvinnu því talið er að aðeins 25--30% starfa séu auglýst en önnur hreyfing á vinnumarkaði sé á óauglýstum vettvangi. Verkefnið var sett upp sem tilraunaverkefni og því nauðsynlegt að taka púlsinn og athuga hvað hefur áunnist og hvert skuli stefna.

Ég tel afar mikilvægt að allir langtímaatvinnulausir eigi aðgang óháð búsetu þó verkefnið sé í samstarfi við Reykjavíkurborg. Eins þyrfti að íhuga hvernig verkefnið gæti unnist á landsbyggðinni. Ef áform eru um að halda áfram með verkefnið þá verður að vera ljóst vegna starfsfólks Vinnuklúbbsins og skjólstæðinga hans að tryggt sé hvert framhaldið verður. Í ljósi þessa hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. félmrh., á þskj. 882:

1. Hver er reynslan af tilraunaverkefni félagsmálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar sem gengur undir nafninu Vinnuklúbburinn?

2. Hvaða sveitarfélög geta og eiga rétt á að nýta sér þjónustu Vinnuklúbbsins?

3. Hvaða áform eru um áframhaldandi störf Vinnuklúbbsins og þá undir forræði hvers?