Vinnuklúbburinn

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 13:42:09 (4831)

1998-03-18 13:42:09# 122. lþ. 90.2 fundur 511. mál: #A vinnuklúbburinn# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[13:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta verkefni hefur tekist sérstaklega vel. Tæplega 200 einstaklingar hafa tekið þátt í tilraunaverkefninu frá því að það hóf göngu sína 28. okt. 1996 og árangurinn hefur verið framúrskarandi. Alls hafa 82% af virkum þátttakendum fengið vinnu en auk þess hafa 2% farið í skóla eða önnur úrræði. Til samanburðar má nefna að árangur erlendis hefur verið í kringum 62%. Það hafa sem sagt 82% fengið vinnu og einungis 9% hafa ekki fengið vinnu. Hinir hafa farið í skóla eða eru virkir í atvinnuleit.

Hluti þeirra sem hafa byrjað í Vinnuklúbbnum hafa gefist upp eða hætt en yfirleitt strax í upphafi starfsins. Ef þeir eru teknir með þá hefur 71% fengið vinnu og 13% hafa hætt þátttöku. Segja má að 80% þeirra sem hafa farið í gegnum þetta prógramm séu í vinnu.

Markmiðið er að aðstoða einstaklingana sem hafa lent í vítahring langtímaatvinnuleysis til þess að komast út á vinnumarkaðinn að nýju. Vinnuklúbburinn er fyrir alla atvinnulausa en sérstakur forgangshópur eru langtímaatvinnulausir. Það hefur tekist sæmilega að ná til langtímaatvinnulausra og 54% þátttakenda hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur og af þeim eru 16% búnir að vera atvinnulausir í þrjú ár eða lengur. Kynjaskiptingin hefur verið nokkuð jöfn. Karlarnir eru aðeins fleiri eða 53% og konurnar 47%. Langflestir þátttakendur eru milli þrítugs og fimmtugs eða 62%. Yngri en 28 ára eru 18% og fimmtugir eða eldri eru 20%.

Önnur spurningin laut að því hvaða sveitarfélög geta og eiga rétt á að nýta sér þjónustu Vinnuklúbbsins. Vinnuklúbburinn er samstarfsverkefni félmrn. og Reykjavíkurborgar og hann var stofnaður sem úrræði fyrir langtímaatvinnulausa á skrá hjá Reykjavíkurborg. Vinnumiðlun Reykjavíkur sá um að kynna vinnuklúbbinn fyrir þeim atvinnulausu og benda þeim á að til boða stæði að taka þátt í vinnuklúbbnum. Því miður reyndist ekki næg þátttaka úr Reykjavík og var horfið á það ráð að bjóða fleirum, þ.e. öðrum vinnumiðlunum á höfuðborgarsvæðinu að benda fólki á vinnuklúbbinn og auk Reykjavíkurborgar hefur verið fólk af Seltjarnarnesi, Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Garðabæ. Allir þeir sem sótt hafa um hafa fengið inngöngu en í sumum tilvikum hefur fólk þurft að bíða eftir að komast að.

[13:45]

Um áframhaldandi starf Vinnuklúbbsins er það að segja að áformað er að Vinnuklúbburinn verði áfram starfræktur sem úrræði fyrir langtímaatvinnulausa, og það er verið að ganga frá samningi milli félmrn. og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vinnumálstofnunar um áframhaldandi rekstur Vinnuklúbbsins. Áformað er að starfsemi Vinnuklúbbsins verði með sama sniði og verið hefur og forsendur fyrir þátttöku í klúbbnum eru óbreyttar, þ.e. að þátttakendur séu skráðir atvinnulausir, en réttur til atvinnuleysisbóta er samt ekki skilyrði fyrir þátttöku. Vinnuklúbburinn verður úrræði við starfsleit, sbr. e-lið 10. gr. laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, og réttur þátttakenda til atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Vinnuklúbburinn verður þannig valmöguleiki við starfsleitaráætlun og fylgi einstaklingur henni ekki getur það leitt til bótamissis. Öll sveitarfélög geta sótt um aðild að Vinnuklúbbnum og einstaklingar með lögheimili í þeim sveitarfélögum sem sótt hafa um geta tekið þátt í Vinnuklúbbnum. Kostnað vegna þeirra sem eiga rétt til atvinnuleysisbóta ber Vinnumálastofnun, eða nánar tiltekið Atvinnuleysistryggingasjóður, en kostnað vegna þeirra sem eru atvinnulausir en eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta ber lögheimilissveitarfélag þátttakandans enda sé sveitarfélagið aðili að Vinnuklúbbnum.