Ábyrgð byggingameistara

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:03:25 (4838)

1998-03-18 14:03:25# 122. lþ. 90.4 fundur 514. mál: #A ábyrgð byggingameistara# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir hin greinargóðu svör og enn fremur umræðu hv. þm. Gísla S. Einarssonar í þessu máli. Ég held nefnilega að hann hafi komið að kjarna málsins í lok ræðu sinnar, að þörf er á lagasetningu hvað þetta mál áhrærir. Við vitum að það tekur allt of langan tíma þegar slík mál koma upp, það tekur áraraðir, og fólk getur jafnvel verið svo illa í sveit sett að það liggur við að það verði gjaldþrota við lok málsins og er þá kannski engu nær.

Ég tel því fulla ástæðu til að löggjöf verði sett hér varðandi þessi viðskipti svo mikil sem þau eru. Við höfum orðið vör við það að á ákveðnum byggingartíma, eins og ég nefndi t.d. uppi í Breiðholti, er ógnvekjandi að sjá hvernig mörg hús líta út eftir ekki lengri tíma. Og menn bara firra sig ábyrgð og benda nánast hver á annan þegar leitað er til þeirra sem stóðu að þeim byggingum.

Það hefur að vísu komið upp í fleiri hverfum í Reykjavík en í Breiðholtinu og eru nokkur nýleg dæmi til um hvernig farið hefur. Þess vegna er mikil nauðsyn gagnvart iðnaðarmönnum --- svo ekki sé hallað á þá --- og gagnvart kaupendum, á að hér séu glögg skil á milli ábyrgðarinnar þannig að fólk þurfi ekki að búa við það í áraraðir að eiga í einhverjum málaferlum og menn komast hring eftir hring fram hjá ábyrgðinni vegna þess að löggjafinn hefur ekki tekið á þessu máli.