Ábyrgð byggingameistara

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:05:22 (4839)

1998-03-18 14:05:22# 122. lþ. 90.4 fundur 514. mál: #A ábyrgð byggingameistara# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:05]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Aðeins varðandi þá fyrirspurn sem kom fram frá hv. þm. Gísla Einarssyni, hvort mér væri kunnugt um hve oft hefði verið krafist ábyrgðartrygginga eða ábyrgða fyrir slíku. Mér er ekki kunnugt um það og ég er ekki viss um að nokkurs staðar séu til yfirlit yfir slíka hluti. Hins vegar verða menn varir við það, sem ég tek alveg undir, en hefur þó held ég sem betur fer dregið úr núna, að þessir stórkostlegu gallar séu að koma upp í byggingum, og það hefur gerst held ég með aukinni samkeppni á verktakamarkaðnum að nokkru leyti, þannig að menn þurfa að vanda sig betur. Vísa ég þá að nokkru leyti til ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar áðan að ég held að þetta hafi oft og tíðum verið alveg skelfilegt þegar mikið var að gera og menn þurftu að flýta sér eins og nokkur kostur var við byggingarnar. Í sjálfu sér voru verktakarnir tiltölulega fáir og lítil samkeppni á þessum markaði. Nú snýr þessi samkeppni ekki einvörðungu að hversu ódýrt menn geta byggt heldur líka hver gæði þeirra bygginga eru sem fólk er að kaupa.

Ég tel rétt að skoðað verði hvort hægt sé að koma fyrir í nýju frv. um kaupalög strangari ákvæðum í þessum efnum. Ég er tilbúinn til þess að skoða það og tel að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hafi hreyft mjög þörfu máli að þessu sinni og þakka fyrir það. Ég mun því láta skoða þetta sérstaklega í tengslum við þá frumvarpsgerð.