Kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:25:57 (4848)

1998-03-18 14:25:57# 122. lþ. 90.6 fundur 516. mál: #A kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:25]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að leggja þessa fyrirspurn fram. Það hittist þannig á að ég, sem var meðflm. að þessari tillögu, hafði hugsað mér að leita eftir svörum í sama dúr. Ég gleðst því yfir því að þetta skuli vera fram komið.

Ýmsir þurfa að stunda nám fjarri heimabyggð þar sem ekki er boðið upp á viðkomandi námskost heima. Það hefur í för með sér mikinn kostnað og mikla röskun á persónulegum högum. Það er mjög alvarlegt ef sá sem er í námi fjarri heimabyggð nýtur ekki almennra réttinda. Því er alveg nauðsynlegt að láta þessa könnun fara fram og mér þykir miður að það skuli ekki hafa komist lengra en svo að hæstv. menntmrh. hefur nú ákveðið að láta fara fram könnun en betra er seint en aldrei.

Ég vona að þetta skýrist. Á borðum mínum og sennilega flestra þingmanna liggja athugasemdir um mismunun milli nemenda. Nemandi sem á heima í Ólafsvík og stundar nám í Fjölbrautaskóla Akraness nýtur ekki sömu réttinda og annar nemandi úr Ólafsvík sem er við nám á Laugarvatni. Það er athyglisvert.