Kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:32:44 (4852)

1998-03-18 14:32:44# 122. lþ. 90.6 fundur 516. mál: #A kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:32]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þegar menn lesa umrædda ályktun Alþingis frá 24. febr. 1995 sjá þeir að sjálfsögðu að menntmrh. hefur í einu og öllu farið að ályktuninni því að þar er honum falið að láta fara fram úttekt á kjörum og stöðu fólks sem stundar nám fjarri heimabyggð. Engin tímamörk eru sett í ályktuninni og það sem gert hefur verið er að búa sem best í haginn fyrir því að úttektin geti skilað sem raunsönnustum niðurstöðum. Þess vegna taldi ég að það bæri að vinna að framgangi þeirra frv. og laga sem snerta þessa nemendur, þ.e. bæði í grunnskóla og framhaldsskóla, og einnig að því er varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna sem er sérstaklega vikið að í ályktuninni, áður en farið væri að gera úttekt á því hvert væri umhverfi nemendanna. Allir menn sjá að þetta er alveg hreint í samræmi við ályktunina, ráðherranum eru ekki sett nein tímamörk og núna er búið að semja við aðila um að hann taki þetta verk að sér. Ég sé því ekki yfir hverju menn eru að kvarta í þessu efni. Úttektin mun liggja fyrir og skýrslan koma fram og ályktunin frá því 1995 í febrúar verður þar með framkvæmd. Hvergi er mælt fyrir um það í ályktuninni að úttektin skuli gerð innan ákveðins tíma. Það er látið í hendur ráðherrans að meta það, hann hefur gert það og skýrslan mun lögð fyrir þingmenn þegar hún liggur fyrir.