Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:37:30 (4854)

1998-03-18 14:37:30# 122. lþ. 90.7 fundur 532. mál: #A fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:37]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég heyrði að hv. þm. breytti nú fyrirspurninni því að spurt var hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir aðgerðum í þágu Verkmenntaskólans en fyrirspurnin er ekki um það. Fyrirspurnin er um það hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir aukafjárveitingu til Verkmenntaskólans á Akureyri. Talsverður munur er á þessu tvennu og einkennilegt að hafa þá ekki orðalagið samræmt milli hins ritaða texta og fyrirspurnarinnar sem fyrir ráðherra er lögð.

Í þessu efni er það svo að menntmrn. hefur staðið mjög að baki fjarkennslunni í Verkmenntaskólanum á Akureyri og lagt mjög mikið af mörkum til að það verkefni þróist. Það er enn þá tilraunaverkefni samkvæmt skilgreiningu ráðuneytisins og verður það til áramótanna 1998/1999. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að verkefnið er í þróun og verkefnið hefur vaxið hraðar en menn óraði fyrir. Það er meiri áhugi á þessu og því nauðsynlegt að huga vel að skipulaginu og taka mjög skipulega á öllum þáttum málsins. Það er það sem menntmrn. hefur einnig gert og nú er sérstakur hópur á vegum þess sem stendur saman á fjármálasviði ráðuneytisins, eftirlitssviði og upplýsingatæknisviði að fara yfir málefni Verkmenntaskólans og fjarkennslunnar þar á þeim forsendum að styrkja grunninn þannig að þetta verkefni komist af tilraunastigi og verði varanlegt verkefni í Verkmenntaskólanum á Akureyri sem hefur haft forustu á þessu sviði og á að hafa það. Hins vegar er eftirspurnin eftir þessu námi svo mikil að það er spurning hvort það er rétt að láta einn skóla sitja einan að því ef ég má orða það svo eða axla einan ábyrgðina á þessu mikla starfi. Það er matsatriði sem menn hljóta líka að líta á þegar það er ljóst að vöxturinn er svo mikill sem raun ber vitni. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða því að fjarkennslan á eftir að verða mun mikilvægari þáttur í skólastarfi okkar og t.d. í hinni nýju skólastefnu er lögð sérstök áhersla á upplýsinga- og tækninám, fjarkennslu og nýtingu tölvutækninnar í þágu allra nemenda. Hér er um mjög öra þróun að ræða og frumkvæðið á Akureyri sýnir að mikill áhugi er á þessu og mikill metnaður í skólanum þar og líka áhugi meðal nemenda og kennara að koma fram með nýjungar á þessu sviði. Varla líður sá viðtalstími sem ég efni til í ráðuneytinu án þess að menn komi og bjóði fram krafta sína og kynni nýjar hugmyndir til að nýta hina nýju tækni í þágu skólastarfs. Að því er varðar þetta, eins og ég segi, er eindreginn vilji minn að þetta fái að þróast áfram við Verkmenntaskólann á Akureyri og tekið verði þannig á málum að það verði litið á allt skipulagið og hvað það er sem þarf að gera til að þróunin stöðvist ekki. Einnig er nauðsynlegt að huga að tengslunum við aðra skóla og jafnframt að átta sig á því að þarna er um kjaramál kennara að ræða sem hefur ekki verið leyst úr, þ.e. að kjarasamningar um þennan þátt í störfum kennara hafa ekki tekist og menntmrn. hefur skilgreint afstöðu sína í því máli og viðræður hafa farið fram milli aðila um þann þátt þessa mikilvæga máls. Það er því eins og alltaf þegar um nýjungar í skólastarfi er að ræða að þá er í mörg horn að líta og margar hliðar mála sem upp koma sem menn þurfa að taka afstöðu til og það hefur reynt á þá þætti alla varðandi þetta starf við Verkmenntaskólann á Akureyri. Á þessum grunni verður síðan tekin afstaða til fjárveitinga til verkefnisins, og metið hver fjárþörfin er. Fjárveitingar til Verkmenntaskólans á Akureyri hækka milli áranna 1997 og 1998 um 37 millj. kr. og er þá ekki tekið tillit til þeirrar hækkunar sem leiðir beinlínis af launahækkunum kennara og raunar hefur sá kostnaðarauki fyrir framhaldsskólana sem felst í launahækkunum kennara ekki verið metinn til fulls. Svo er það hlutur Verkmenntaskólans að forgangsraða þessum fjármunum í þágu einstakra verkefna en það er alveg ljóst að menntmrn. er reiðubúið til að vinna að því með skólanum að styrkja forsendurnar fyrir fjarkennslunni og taka á því í samræmi við þá miklu eftirspurn og þann mikla metnað sem ríkir á þessu sviði innan skólans.