Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:43:36 (4856)

1998-03-18 14:43:36# 122. lþ. 90.7 fundur 532. mál: #A fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:43]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég heyri á máli hæstv. ráðherra að hann telur tímabært að fara að skipuleggja hér fjarkennslu. Í haust þegar við ræddum tillögu sem ég var 1. flm. að, sem var um að nýta fjarkennslu til að jafna aðstöðu til náms, var helst á hæstv. ráðherranum að heyra að ekki mætti skipuleggja þessi mál um of og þar fannst mér, herra forseti, að hann ruglaði dálítið saman, annars vegar því að hagnýta tölvutækni á Íslandi og hins vegar því að nýta tæknina skipulega til að jafna aðstöðu til náms með fjarnámi. Ég er ánægð með það ef hæstv. ráðherrann er búinn að átta sig á því að það þarf að móta stefnu í þessu máli og að það þarf síðan að fylgja þeirri stefnu eftir með fjármunum. Stundum hefur okkur fundist að hvort tveggja mætti vanta að mati hæstv. ráðherrans. En aðeins vegna þess sem hann talaði um áðan, að skólar sætu einir að, veit ég ekki betur en Verkmenntaskólinn á Akureyri hafi verið skilgreindur sem kjarnaskóli hvað fjarkennslu varðar og eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda er þetta fyrst og fremst spurning um skipulag af hálfu kjarnaskóla, af hálfu móðurskóla vegna þess að nemendur og kennarar geta í sjálfu sér verið hvar sem er.