Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:45:03 (4857)

1998-03-18 14:45:03# 122. lþ. 90.7 fundur 532. mál: #A fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og öðrum þeim sem þátt tóku í umræðunni. Fyrst vil ég bregðast við athugasemd hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Það er ekki óeðlilegt að umræða um fjarnám, sem er nýjung og þróunarstarf, fari fram hér sem fyrirspurn til hæstv. menntmrh. Það er jú menntmrn. sem fer með menntamálin.

Það er fagnaðarefni að hæstv. ráðherra skuli hafa gengið í málið. Af svörum hans má skilja að vel sé fylgst með í þessum efnum. Þar koma að þau ráðuneyti sem við eiga og ég trúi því að hann muni leiða það til farsælla lykta. Ég ítreka það hversu mikið gildi fjarkennslan hefur að öllu leyti. Ég trúi því að hún eigi eftir að verða snar þáttur í kennslu á 21. öldinni og bjóða nemendum á öllum aldri upp á mikinn sveigjanleika, bæði í grunnnámi og ekki síður í endurmenntun. Þá árétta ég eðli fjarkennslunnar, nefnilega það að vera óbundna tíma og rúmi. Einstaklingurinn á að geta lært á þeim tíma sem honum hentar, með þeim hraða sem honum hæfir og þar fram eftir götunum.

Þó fjármál Verkmenntaskólans á Akureyri verði leyst núna þá óttast ég að vöxtur á þessu sviði verði svo hraður að fljótlega komi upp svipuð staða. Fjárskortur má einfaldlega ekki verða til þess að hefta eðlilega þróun á þessu mikilvæga sviði kennslunnar. Ég vil því spyrja hvort hæstv. menntmrh. gæti hugsað sér að beita sér fyrir nýjum framhaldsskóla sem eingöngu yrði byggður á fjarkennslu. Með því móti væri staða slíks náms tryggð með sérstöku fjárlaganúmeri. Þar með gæfist kostur á að fylgja þróuninni eftir. Kosturinn við slíkan sjálfstæðan fjarkennsluskóla er m.a. sá að hann krefst nánast einskis húsnæðis og fjármunir til hans færu nánast eingöngu til beinnar kennslu. Ég teldi ekki óeðlilegt að slíkur sjálfstæður fjarkennsluskóli yrði til upp úr fjarkennslusviði Verkmenntaskólans á Akureyri.