Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:47:28 (4858)

1998-03-18 14:47:28# 122. lþ. 90.7 fundur 532. mál: #A fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur vil ég aðeins taka það fram að menntmrn. mótaði stefnu í upplýsinga- og tæknimálum í þágu menntunar og menningar undir heitinu ,,Í krafti upplýsingar``, strax í ársbyrjun 1996. Þar er tekin afstaða til mikilvægis fjarkennslu í skólum. Ráðuneytið þarf því ekki að móta neina stefnu í þessu eða skipa nefndir til þess að fjalla um það.

Varðandi útfærsluna á stefnunni þá er það rétt að við höfum sérstaklega skilgreint þetta verkefni við Verkmenntaskólann á Akureyri og hann hefur stundað tilraunastarf. Það er hins vegar ekki rétt að hann hafi verið útnefndur kjarnaskóli, enda hefur enginn kjarnaskóli verið útnefndur í skólakerfinu. Þar eru starfsmenntabrautir, og við þurfum að bíða eftir tillögum frá starfsgreinaráðum varðandi útnefningu á kjarnaskólum. Og það er aðeins í starfsnámi, eins og þeir sem þekkja framhaldsskólalögin vita, sem um kjarnaskóla er að ræða. Hins vegar hefur þessi skóli fengið þetta sérstaka verkefni og menntmrn. hefur ekki samþykkt að fjarkennsla væri tekin upp undir formerkjum annarra skóla.

Hins vegar er rétt hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að spurningin er: Hvernig á að þróa þetta verkefni þegar fram líða stundir? Hvað kennir reynslan okkur? Þetta er ekki staðbundið, hvorki nemendurnir né kennararnir. Þetta er fyrst og fremst spurning um að miðla góðum upplýsingum, taka við þeim og meta þær síðan í þágu nemendanna. Verður þetta skóli sem einungis er á framhaldsskólastigi eða sambland af framhaldsskólastigi, grunnskólastigi og háskólastigi?

Á Austfjörðum er t.d. krafa um að framhaldsskólarnir bjóði í fjarkennslu endurmenntun sem tengist háskólanámi. Eins er það hluti af hinni nýju skólastefnu að tengsl verði á milli grunnskólans og framhaldsskólans um sérhæfingu, þar sem fjarkennslan mundi einnig nýtast mjög vel. Við sjáum því að skilin á milli einstakra skólastiga hafa raskast að vissu marki og þess vegna hvorki skynsamlegt að binda sig við eitt skólastig né eina skólastofnun. Skárra er að horfa á landið í heild og taka síðan ákvarðanir í samræmi við það.