Þjónusta geðlækna í fangelsum

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:53:22 (4860)

1998-03-18 14:53:22# 122. lþ. 90.8 fundur 527. mál: #A þjónusta geðlækna í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:53]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Svar við fyrirspurn hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur er svohljóðandi: Um áramót var lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, breytt á þann veg að í þeim eru ákvæði sem segja að í fangelsum skuli fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir. Jafnframt bætist við ákvæði þess efnis að að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun sjái heilbr.- og trmrn. um og beri ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum.

Þá bætist nýr málsliður við 1. mgr. 51. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117 frá 1993. Þar kemur fram að fangar skuli njóta sjúkratrygginga annarra en sjúkradagpeninga samkvæmt almennum reglum sem um það gilda.

Fangelsismálastofnun gerði samning um læknaþjónustu við fangelsið að Litla-Hrauni í janúar 1997. Þjónustan felst í reglulegum læknisvitjunum tvisvar í viku ásamt útköllum ef á þarf að halda. Læknirinn hefur eftir atvikum vísað föngum á þjónustu sérfræðilækna, þar með talið geðlækna. Um áramótin þegar heilbr.- og trmrn. tók yfir heilbrigðisþjónustu við fanga komust aðilar að samkomulagi um að starfa tímabundið samkvæmt samningnum.

Af hálfu ráðuneytisins er unnið að gerð samnings við Heilbrigðisstofnun Selfoss um heilbrigðisþjónustu við fanga að Litla-Hrauni. Með tilkomu samningsins mun Heilbrigðisstofnun Selfoss sjá um alhliða heilbrigðisþjónustu við fanga að Litla-Hrauni, þar með talið geðlæknisþjónustu. Eins og fram kom í fsp. hv. þm. þá tók Heilbrigðisstofnun Selfoss yfir reksturinn á Sogni um áramótin 1997.

Önnur spurning hv. þm. var svohljóðandi: Hefur verið gerður sérstakur samningur um þjónustu geðlækna í öðrum fangelsum? Ef svo er hvað felst í þeim samningum?

Í júni 1996 gekk í gildi samningur milli Fangelsismálastofnunar ríkisins og Heimilislæknastöðvarinnar Lágmúla 4, um almenna læknisþjónustu ásamt sérfræðiþjónustu, þar með talið geðlæknisþjónustu í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og fangelsinu í Kópavogi. Um áramótin, þegar heilbr.- og trmrn. tók yfir heilbrigðisþjónustu við fanga, komust aðilar að samkomulagi að starfa áfram samkvæmt samningnum. Af hálfu ráðuneytisins er unnið að gerð sambærilegs samnings við Heimilislæknastöðina að Lágmúla 4.

Heilbrigðisþjónustu við fanga í Ríkisfangelsinu á Akureyri er sinnt af héraðslækninum á Norðurlandi eystra ásamt heilsugæslulæknum á svæðinu. Læknarnir hafa vísað föngum á sérfræðiþjónustu eftir atvikum, þar með talið þjónustu geðlækna sem starfa á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.