Fyrirkomulag meðferðar ósakhæfra geðsjúklinga

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:02:19 (4864)

1998-03-18 15:02:19# 122. lþ. 90.9 fundur 528. mál: #A fyrirkomulag meðferðar ósakhæfra geðsjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 905 hef ég lagt fram fimm fyrirspurnir til hæstv. heilbrrh. um fyrirkomulag meðferðar ósakhæfra geðsjúklinga. Ég verð að viðurkenna strax, hæstv. forseti, að ég hélt að við þessari fyrirspurn hefði verið beðið um skriflegt svar því hún er afar viðamikil. Það var ekki fyrr en í morgun að ég komst að því að svo var ekki. Það er því e.t.v. erfitt að svara öllum þessum liðum á tiltölulega stuttum tíma.

Nýlega hefur verið skilað skýrslu um fimm ára starfsemi réttargeðdeildarinnar á Sogni. Þar má m.a. sjá að það starfsfólk sem þar hefur starfað á þessum tíma hefur unnið að mínu mati hreint kraftaverk. Skýrslan sýnir okkur að fjórir sjúklingar hafa verið útskrifaðir frá Sogni á þessu fimm ára tímabili. Þá hafa jafnframt, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, fimm sjúklingar komið þar til meðferðar frá Litla-Hrauni, aðeins þó brot af þeim einstaklingum sem þyrftu á þeirri meðferð að halda. Er það þá fyrst og fremst vegna þess að húsnæðið býður ekki upp á það að fleiri geti notið þessarar þjónustu og þaðan af síður fjöldi starfsmanna.

Í skýrslunni er farið yfir aðdragandann, yfir söguna og síðan er niðurstaðan dregin saman og bent á hvað þurfi í raun og veru að gera til þess að sú starfsemi megi dafna með þeim hætti sem þörf er fyrir í okkar þjóðfélagi eins og alls staðar annars staðar. Réttargeðlækningar hafa alls staðar annars staðar en á Íslandi hlotið mjög verðugan sess í heilbrigðisþjónustunni og innan dómskerfisins, miklu verðugri sess en við höfum séð sóma okkar í.

Í niðurstöðu skýrslunnar kemur fram að þar eru nokkur atriði tíunduð sérstaklega sem þurfi að taka á. Í fyrsta lagi þurfi að fjölga starfsmönnum verulega, fagfólki á Sogni, frá því sem nú er. Það þurfi að ráða þar aðstoðarlækni í hlutastarf, það þurfi sálfræðing og iðjuþjálfa, sem fyrir nokkru síðan var látinn fara, félagsráðgjafa þurfi og gera þeim sem þar dvelja kleift að stunda nám umfram það sem er í dag.

Þá er tekið alveg sérstaklega á framkvæmd eftirmeðferðar sem er með mjög sérstöku móti. Þessir fjórir einstaklingar sem hafa verið útskrifaðir frá réttargeðdeildinni eða eru lausir úr öryggisgæslu réttargeðdeildar, eru allir dæmdir til eftirmeðferðar. Þeir verða að fá eftirmeðferð. Því hefur verið framfylgt en af því hefur hlotist mjög mikill kostnaður og ekki er heldur til nægjanlegur fjöldi starfsfólks til að sinna þeirri eftirmeðferð og ekki hefur verið komið á fót göngudeild fyrir þennan hluta þjónustunnar.

Ég hef því í framhaldi af niðurstöðu þessarar skýrslu lagt fram þær fyrirspurnir sem eru á þskj. 905 og hæstv. ráðherra mun fara yfir.