Fyrirkomulag meðferðar ósakhæfra geðsjúklinga

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:11:38 (4866)

1998-03-18 15:11:38# 122. lþ. 90.9 fundur 528. mál: #A fyrirkomulag meðferðar ósakhæfra geðsjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það hefur háð mjög störfum réttargeðdeildarinnar að Sogni, sem reyndar á víst ekki að kalla því nafni, að ekki eru til skýrar reglur hvað hana varðar um nánast flestalla þætti þeirrar starfsemi. Ef ég aðeins drep niður í þessa greinargerð sem ekki er unnin eingöngu af starfsfólki, það eru aðrir sem komu að á þeim sérsviðum, þ.e. geðlæknisþjónustu, þá segir þar að ekki hafi fengist samþykktar reglur um að Sogn sæi um eftirmeðferð og eftirfylgd útskrifaðra sjúklinga þrátt fyrir að stofnunin sinni því verkefni þá þegar, og það sé mjög slæmt fyrir sjúklingana. Síðan segir í greinargerðinni, sem er alveg með ólíkindum, að ferðakostnaður eftirmeðferðar sjúklinga Sogns sem eru búsettir á Reykjavíkursvæðinu fellur á þá sjálfa og Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki fallist á að taka þátt í þeim greiðslum vegna þess að hún telur að þessa þjónustu megi veita í Reykjavík. Það er mat Tryggingastofnunar ríkisins að þjónustuna megi veita í Reykjavík þó sérþekkingin sé öll á Sogni og þaðan eigi eftirmeðferðin samkvæmt dómi að eiga sér stað. Í greinargerðinni segir:

,,Það mat Tryggingastofnunar er e.t.v. ekki undarlegt í ljósi þess að heilbr.- og trmrn. hefur hvergi getið þess eða formlega ákveðið að eftirmeðferð ósakhæfra geðsjúklinga skuli fara fram né heldur hvar hún skuli fara fram.`` Síðan segir líka: ,,Heilbrigðiskerfið hefur hvergi gert ráð fyrir fjárveitingu né aðstöðu til að framkvæma þessa þjónustu,`` þ.e. eftirmeðferðina. Hvorki dómsmrn. né heilbrrn. hafa svo vitað sé hugmyndir um hvar og hvernig verkefninu skuli sinnt. Fyrsti sjúklingurinn var útskrifaður 1994, dæmdur til eftirmeðferðar. Síðan eru liðin fjögur ár og enn vita þessi hv. ráðuneyti ekki hvernig eða hvar eftirmeðferðinni skuli sinnt.