Ríkisstyrktar kaupskipaútgerðir á Norðurlöndum

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:20:13 (4869)

1998-03-18 15:20:13# 122. lþ. 90.3 fundur 513. mál: #A ríkisstyrktar kaupskipaútgerðir á Norðurlöndum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:20]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurning hv. þm. er tvíþætt. Í fyrsta lagi: Hver eru ríkisframlög til kaupskipa sem skráð eru og gerð út annars staðar á Norðurlöndum?

Samkvæmt upplýsingum Siglingastofnunar um helstu ríkisstyrki á Norðurlöndum til kaupskipaútgerða er þetta að segja: Upplýsingar um ríkisstyrki í Noregi eru fengnar frá ýmsum áttum, þar með töldum lögum þeirra og fréttatilkynningum. Upplýsingar um ríkisstyrki Norðurlanda sem jafnframt eru aðildarþjóðir Evrópubandalagsins, eru m.a. fengnar úr gagnabanka Evrópubandalagsins og eru tölurnar frá árinu 1997 og 1998. Vitað er að mörg Evrópubandalagslönd vinna nú að endurskoðun ríkisstyrkja til kaupskipaútgerða með hliðsjón af leiðbeiningum Evrópubandalagsins frá því í júlí 1997 um ríkisstyrki, og bendir flest til þess að þeir muni aukast í næstu framtíð meðal bandalagsþjóðanna.

Um Danmörk er þetta að segja: Farmenn á dönskum kaupskipum sem skráðir eru á dönsku alþjóðlegu skipaskrána eru undanþegnir tekjuskatti. Útgerðir skipa sem skráð eru á alþjóðlegu dönsku skipaskrána greiða lægra tryggingagjald fyrir hvern starfsmann en útgerðir skipa sem skrá skip sín á almennu dönsku skipaskrána.

Um Noreg er þetta að segja: Norska ríkisstjórnin veitti 339 millj. norskra króna árið 1997 til þess að endurgreiða útgerðum norskra skipa tekjuskatt og tryggingagjöld norskra farmanna. Skip í norsku skipaskránni og alþjóðlegu norsku skipaskránni, NOR og NIS, sem uppfylla norskar öryggiskröfur, geta fengið hluta launakostnaðar vegna norskra ríkisborgara endurgreiddan. Miðað er við að peningarnir dugi fyrir allt að 19% launakostnaðar útgerða vegna norskra starfsmanna. Norska ríkisstjórnin veitti árið 1997 um 75 millj. norskra króna til að endurgreiða útgerðum skipa í norsku alþjóðlegu skipaskránni NIS hluta launakostnaðar farmanna í lærlingsstöðum og í stöðum lægri yfirmanna. Norska ríkisstjórnin hefur ráðstafað á fjárlögum 1998 251 millj. norskra króna vegna fyrri hluta ársins í báða þessa liði. Norskar útgerðir geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum valið um að greiða tonnaskatt í stað tekjuskatts. Þá miðast skatturinn við stærð skipastóls en ekki rekstrarafkomu og getur það þýtt verulega skattalækkun fyrir útgerðir.

Um Svíþjóð er þetta að segja: Nýjar styrkjareglur fyrir árið 1998 eru að útgerðir farskipa fái endurgreiðslu frá ríkinu sem nemur öllum tekjuskatti sænskra ríkisborgara um borð. Útgerðir farskipa fá einnig tryggingagjöld vegna sænskra farmanna endurgreidd að hámarki 29 þúsund sænskar krónur á ári.

Um Finnland er þetta að segja: Allt að 18% afsláttur er af sköttum farmanna til ríkisins og 30% afsláttur af útsvari farmanna. Aukaskattafsláttur er fyrir hvern heilan mánuð í útivist ef ekki er komið við í Finnlandi.

Þá er spurt: Er veittur ríkisstyrkur í einhverju formi til íslenskra kaupskipa? Því er til að svara að sérstakur skattafsláttur til sjómanna er 656 kr. fyrir hvern dag. Dagafjöldi er fundinn með því að margfalda hvern lögskráningardag með stuðlinum 1,49.