Ríkisstyrktar kaupskipaútgerðir á Norðurlöndum

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:24:11 (4870)

1998-03-18 15:24:11# 122. lþ. 90.3 fundur 513. mál: #A ríkisstyrktar kaupskipaútgerðir á Norðurlöndum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:24]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir þessar upplýsingar. Þær eru mjög athyglisverðar og ganga finnst mér á skjön við það sem hér var getið um áðan. Þá var rætt um aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og að ekki skyldi beita þar ríkisstyrkjum og þeir ekki framleigðir af hálfu ríkis viðkomandi landa.

Það er athyglisvert að þegar hér var lagt fram frv. til laga um afnám stimpilgjalda þá var þess sérstaklega getið í því frv. að stimpilgjöld yrðu afnumin þegar íslensk kaupskip yrðu skráð hér á landi að frágenginni tiltekinni alþjóðlegri skráningu. Mig undrar það mjög að þessi skilyrði skuli vera sett vegna þess að aðilar sem standa í íslenskri kaupskipaútgerð hafa getið þess sérstaklega að skráningarkostnaður hér á landi væri of dýr og þess vegna ættu þeir skipin en væru áfram með þau undir þægindafánum.

Ef hæstv. samgrh. veit hvað hæstv. fjmrh. er að fara með þessu frv. sínu þar sem segir að stimpilgjöld af íslenskum kaupskipum verði ekki afnumin nema að tilteknum uppfylltum skilyrðum sem eru að sett verði hér á alþjóðaskráning, væri nú gott að fá upplýsingar um það.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. samgrh. fyrir svörin. Þetta leiðir eflaust huga landsmanna frekar að því að við verðum að mæta samkeppni í alþjóðlegum siglingum á hafinu kringum Ísland einhvern veginn hvort sem mönnum líkar það betur eða verr vegna þess að eyþjóð sem Íslendingar er nánast fótlaus ef ekki er til öflugur íslenskur kaupskipafloti.