Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:43:39 (4875)

1998-03-18 15:43:39# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þessar deilur í Borgarfirði hafa komið mér mjög á óvart. Það er ekki síst vegna þess að ég tel að sáttatillagan sé raunhæf og sanngjörn. Hún er vegtæknilega fullnægjandi og ekki svo dýr að ástæða sé að horfa til þess. Á hinn bóginn liggur það fyrir að ef farið er fyrir neðan Stóra-Kropp, þá veldur það mikilli sjónmengun og óhagræði miklu fyrir bóndann þar. Raunar má segja að erfitt sé að sjá að Stóri-Kroppur verði bújörð eftir að vegur hefur verið lagður, svo breiður sem nauðsynlegt þykir í þessu tilfelli. Umferð í Borgarfirði er svo mikil og stríð yfir sumarið og hættur svo miklar. Því er erfitt að sjá það fyrir sér að þar verði farsællega búið ef vegurinn kemur neðan býlisins. Mér kemur því mjög á óvart að ekki skuli hafa náðst samkomulag í sveitinni um sáttaleiðina. Eins kemur það mér á óvart ef bændur í Borgarfirði hafa það að sérstöku keppikefli að vegir séu óþörfu lagðir yfir tún og lendur nágrannabænda.

Ég vil jafnframt segja að ég lít svo á að ekkert sé því til fyrirstöðu skipulagslega að leggja bundið slitlag á veginn eins og hann er núna. Vegagerðinni er það heimilt. Þetta er þjóðvegur og hún hefur að sjálfsögðu heimild til þess að halda við þjóðvegum, bæta þá og leggja bundnu slitlagi.

Þriðja ástæða þess að þessi niðurstaða kom mér á óvart, eins og allt þetta mál --- svipað mætti segja um afstöðu skipulagsins til Háreksstaðaleiðar eystra --- er kostnaðurinn sem af henni leiðir. Óneitanlega er það rétt sem kom fram í fyrirspurn hv. þm., að Vegagerðin er að borga himinháar fjárhæðir fyrir umhverfismat að óþörfu. Hún þarf að greiða fyrir hvers konar bréfaskriftir og athuganir sem nauðsynlegt er að gera vegna nýrra vinnubragða Skipulags ríkisins og umhverfismats. Þess vegna verður allur kostnaðurinn aldrei tíundaður.