Vinna í nefndum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:33:04 (4883)

1998-03-19 10:33:04# 122. lþ. 91.91 fundur 265#B vinna í nefndum# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:33]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að láta það koma skýrt fram að eins og staðan er í þinghaldinu núna er engin sátt um störf þingsins. Stjórnarandstaðan hefur á þessum vetri eins og reyndar undanfarin ár reynt að stuðla að því að þingstörfin gætu gengið eðlilega fyrir sig faglega og af sanngirni og reynt fyrir sitt leyti að stuðla að því að vinnubrögð yrðu betri en þau voru löngum áður, m.a. með því að halda þannig á málum að ekki þyrfti að halda ítrekað kvöldfundi, ekki þyrfti að halda ítrekað aukafundi í nefndum á óeðlilegum tímum.

Þessi sáttfýsi stjórnarandstöðunnar hefur að mínu mati að nokkru leyti verið misnotuð vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa gengið á lagið og það er verið að setja fundi á algerlega óeðlilegum tímum í nefndum eins og í efh.- og viðskn. þar sem var fundur í allan gærdag austur í Hveragerði og sá fundur stendur enn. Það stóð til að setja á fund í allshn. á laugardaginn kemur sem ég vil nota tækifærið og mótmæla sérstaklega og það er verið að setja á aukafundi t.d. í félmn. sem hefur hið mesta að vinna núna í hádeginu í dag þegar margir félagsmálanefndarmenn þurfa að taka þátt í þeim umræðum sem fram fara í dag um utanríkismál.

Allt er þetta með þeim hætti, herra forseti, að ekki er nokkur leið að sætta sig við það. Í fyrradag gat stjórnarliðið heldur ekki mætt betur í salinn en svo að það þurfti fjóra eða fimm stjórnarandstæðinga til þess að koma málum eðlilega áfram til nefndar eftir að Alþingi hafði rætt og afgreitt við 1. umr. 14 stjfrv. á einum og sama degi. Þessi vinnubrögð eru ólíðandi vegna þess að það fylgir þeim líka það að stjórnarflokkarnir og ráðherrarnir segja ævinlega: Þetta mál verður svo að verða að lögum fyrir lok þingsins. Þetta gengur ekki.

Ég vil láta þetta koma fram, herra forseti, og ég tel að við þurfum að velta því fyrir okkur hvort við höfum gengið of langt í því að gera Alþingi að ópólitískri tæknistofnun í staðinn fyrir að hún sé vettvangur eðlilegrar pólitískrar umræðu.

Þessu vil ég koma á framfæri og aðalatriðið er þetta: Eins og er er engin sátt um störf þingsins.