Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:47:22 (4903)

1998-03-19 11:47:22# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ágæta ræðu. Ég tel vera mjög mikilvægt að hér er staðfest að þeir flokkar sem stóðu að inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið fyrir nær hálfri öld eru samstiga um að standa að stækkunarferlinu. Það er mjög mikilvægt að slík pólitísk samstaða skuli vera staðfest á Alþingi. Þrátt fyrir ágreining um ýmis mál í gegnum tíðina hafa þessir flokkar borið gæfu til að standa saman um Atlantshafsbandalagið.

Aðeins út af ummælum hv. þm. varðandi það hvernig Íslendingar stóðu að þessu máli vil ég ítreka að við höfum í sjálfu sér ekkert á móti inngöngu Rúmeníu og Slóveníu í Atlantshafsbandalagið. Í sjálfu sér er þegar farið að undirbúa inngöngu þessara ríkja. En þeir verða að búa við sömu leikreglur og Eystrasaltsríkin. Það er ekki hægt að taka þessi ríki inn á undan Eystrasaltsríkjunum nema fagleg rök liggi þar til grundvallar en ekki andstaða Rússlands.