Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:55:13 (4909)

1998-03-19 11:55:13# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög ósanngjarnt að halda því fram að ég styðji að þremur öðrum ríkjum sé hafnað. Ég færði rök fyrir því í ræðu minni að það væri æskilegt að ný bylgja nýrra ríkja yrði tekin sem fyrst inn í sambandið og það væru ekki bara þessi þrjú Eystrasaltsríki heldur líka Rúmenía og Slóvenía og reyndar líka hin ríkin.

Hv. þm. sagði að hann skorti rök úr ræðu minni. Hv. þm. sagði að þetta mundi auka spennuna í Austur-Evrópu, auka spennuna í Evrópu. Ég færði rök fyrir því að sérstaklega þátttaka smáríkja í sterkum varnarbandalögum dregur úr kostnaði þeirra við varnarvæðingu. Það drægi hins vegar úr líkunum á því að vígbúnaðariðnaðurinn nái aftur þeirri uppsveiflu sem hv. þm. talaði um og þar af leiðir að spennulíkur minnka.