Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 13:59:39 (4921)

1998-03-19 13:59:39# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég vísaði til þeirra þriggja ríkja sem fengju hér sérstaka meðhöndlun var ég reyndar að vísa til þeirra sem fengu aðild. Þau njóta þeirra sérstöku forréttinda að vera valin út úr hópnum, tekin upp í hinn vestræna klúbb efnahagslegra og hernaðarlegra hagsmuna en önnur eru skilin eftir. Hv. þm., sem hélt þessar tilfinningaþrungnu ræður í fyrra og hittiðfyrra þar sem hann sagði að það skyldi aldrei verða að Eystrasaltsríkin yrðu ekki tekin inn í fyrstu umferð og skammaði hæstv. utanrrh. miklum skömmum fyrir að vera ekki nógu harður í þeim efnum, stendur nú frammi fyrir niðurstöðu, (ÖS: En hann harðnaði.) efnislegri niðurstöðu. Hver er sú efnislega niðurstaða? Hún er að Eystrasaltsríkin eru ekki með. Ég furðaði mig á því að hv. þm. skyldi eftir sem áður koma í ræðustólinn svo ljómandi af ánægju. Hv. þm. mærði hæstv. utanrrh., þann sama og hann skammaði sem mest í fyrra og hittiðfyrra. Mér fannst og finnst reyndar enn vera í því fólgin ákveðin mótsögn vegna þess að hv. þm. hafði lýst sig svo algerlega andvígan þeirri efnislegu niðurstöðu að stækkun NATO yrði yfir höfuð á þá leið að Eystrasaltsríkin yrðu ekki tekin með í fyrstu umferð. Ég vakti athygli á því og ég vona að það sé í lagi að vitna í hugverk, ræður og hugsanir hins merka þingmanns Össurar Skarphéðinssonar lengur en til eins árs í senn. Að vísu geri ég mér ljóst að menn sem skipta oft um flokka og jafnvel skoðanir, það getur verið viðkvæmt mál að vitna í verk þeirra og orð langt aftur í tímann en ég bið þá hv. þm. um leiðsögn. Hversu langt aftur í tímann er leyfilegt að vitna í orð og skoðanir hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar?