Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:01:39 (4922)

1998-03-19 14:01:39# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er sómi að því að hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon vitnar í ræður mínar. Hann má vitna í þær eins lengi og eins oft og hann vill. Mér væri líka sæmd að því að veita honum leiðsögn um það hvernig á að skipta um flokka. Ég hef til að mynda lagt mitt litla lóð á þá vogarskál að við verðum innan tíðar í sama flokki. Það þarf kannski að draga hann þangað með afli en ég held að það muni hafast að lokum. En að öðru leyti, herra forseti, sýnist mér að þegar allt er skoðað og hv. þm. er skorinn til hjartans og nýrnanna komi í ljós að hann er í raun að segja að hann styðji eindreginn vilja Eystrasaltsþjóðanna þriggja til þess að fá, ef þær kjósa það sjálfar, að verða fullgildir aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það finnst mér ríma mjög við þær ræður sem ég hef haldið hér í dag.